Sjálfstæðismenn reisa íbúðablokk og skrifstofur á reitnum við Valhöll

Sjálfstæðisflokkurinn sér tækifæri í stefnu Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar, því tveir nýir byggingarreitir verða til í kringum Valhöll, Háaleitisbraut 1, þar sem höfuðstöðvar flokksins eru til húsa.

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðina númer 1 við Háaleitisbraut. THG Arkitektar hafa unnið tillöguna.

Samkvæmt henni verður bætt við tveimur nýjum byggingarreitum á lóðinni auk þess sem heimilt verður að stækka hús Veitna sem stendur við Bolholt 5.

Næst Kringlumýrarbraut verður heimilit að reisa fimm hæða skrifstofubyggingu með bílakjallara. Á horni Skipholts og Bolholts verður heimilt að reisa 4 – 6 hæða íbúðarhús með bílakjallara og þjónustu- og verslunarrými á 1. hæð. Bílastæðum fjölgar á lóðinni eftir að nýjar byggingar rísa og verður hluti þeirra í bílakjallara. Byggingar- og nýtingarhlutfall hækkar sem þessu nemur.

Byggingarnar sem munu rísa á lóðinni skulu falla vel að byggingum í nágrenninu.

Eigandi lóðarinnar innir af hendi innviðagreiðslur samkvæmt samningi vegna aukins byggingarmagns og breyttrar notkunar á lóðinni. Lóðin er í eigu Sjálfstæðisflokksins.