„Mér skilst að einhver þingmaður eða þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki getað sætt sig við tillögu um að skipaður yrði fimm manna sérfræðihópur til að skoða ýmis álitamál vegna orkupakkans í sumar. Ætlunin var að skipa fimm manna sérfræðihóp með aðkomu allra þingflokka. Þingflokksformaður sjálfstæðismanna hefur sagt að einhverjir í hans hópi velti því fyrir sér hvort ástæða sé til að fjalla aftur um það sem utanríkismálanefnd hafi þegar tekið fyrir. Um það vil ég segja að frá því að síðan þá hefur ótal margt komið upp sem full ástæða er til að skoða.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við Viljann, aðspurður um hvað hafi orðið til þess að fallið var frá samkomulagi Miðflokksins og stjórnarflokkanna um þinglok, seint í gærkvöldi.
Komið hefur fram að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins segist ekki hafa viljað fallast á samkomulagið vegna þess að þeir treysti ekki Miðflokknum. Fellst þú ekki á þá skýringu?
„Þetta er svo kölluð eftiráskýring.Það er svo sem ekkert launungarmál að við treystum ekki þingflokki sjálfstæðisflokksins í orkupakkamálinu. Það var hins vegar ríkisstjórnin sem vildi hafa samkomulagið skriflegt og við féllumst á það enda aldrei hvarflað annað að okkur en að standa við samkomulag sem við gerum hvort sem það er munnleg eða skrifleg. Þegar var svo búið að undirrita skriflegt samkomulag létu einhverjir þingmenn draga það til baka. Það er auðvitað ekki traustvekjandi.“
Frumvarp forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði virðist hafa sett strik í reikninginn í samningum við forsætisráðherra. Bættuð þið við kröfu um að það mál færi af dagskrá?
„Sú umræða snerist um að við töldum ekki eðlilegt að ríkisstjórnin væri að bæta inn málum eftir að þinglokasamningar hófust. Það sama átti við um önnur mál sem þau kynnu að bæta við. Þetta tiltekna mál er líka mjög stórt og það hafa komið mikilvægar ábendingar, m.a. frá heilbrigðisstéttum, um að það þurfi að gera breytingar á því. Það er því dálítið sérkennilegt að ætla að keyra slíkt mál í gegn á einum eða tveimur dögum án þess að líta til þeirra ábendinga. Málið var hins vegar ekki hluti af þinglokasamningnum sem ég undirritaði og það fór í aðra umræðu í morgun.“
Þingflokkur sjálfstæðismanna orðinn ráðgáta
Við atkvæðagreiðslu um kjararáð í morgun lagði Sigmundur til að málið færi aftur til nefndar m.a. svo hægt væri að meta hvort ráðlegt væra að minnka launamun ráðherra og annarra þingmanna.
Ert þú með þessu að reyna að refsa ráðherrunum?
„Nei, það er nú ekki hugsunin. Eins og ég nefndi í ræðu snýst þetta m.a. um að minnka hvatann sem sumir flokkar gætu upplifað til að fórna stefnu sinni eftir kosningar í skiptum fyrir nokkra ráðherrastóla. Mér finnst þetta líka eðlilegt í ljósi áforma um að jafna vægi löggjafar- og framkvæmdavalds.“
Sérðu þá fyrir þér hækkun á launum þingmanna eða lækkun á launum ráðherra?
„Laun bæði þingmanna og ráðherra hafa hækkað talsvert þannig að ég hugsa að það væri eðlilegra að færa ráðherrana nær þingmönnum.“
Áttu von á að það náist samningar um þinglok í dag?
„Það er ómögulegt að segja. Ég er að reyna að rannsaka hvað er um að vera í þingflokki sjálfstæðismanna. Sá hópur er orðinn mun meiri ráðgáta en hér áður fyrr. En ef menn ná niðurstöðu getur þetta allt klárast nokkuð hratt“