Sjálfstýringin er á Ríkisútvarpinu allan sólarhringinn, eigi Samfylkingin og eftir atvikum aðrir vinstriflokkar í hlut, segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag.
„Fréttastofan þar er líka á móti Trump, forseta Bandaríkjanna, en hún var með Obama sem áður var forseti sama lands þótt slappur væri. Ekkert í lögum Ríkisútvarpsins bendir þó til þess að það hljóti að vera hluti af náttúrulögmálunum.
Fréttastofan er með Evrópusambandinu og fréttir fátt af því sem geti varpað skugga á það. Hún er sjálfkrafa á móti þeim sem eru á móti því. Ekkert er heldur um þá skrítnu afstöðu í lögum um Ríkisútvarpið. Þvert á móti sjá allir sem læsir eru að reglurnar ganga síst út frá því að fréttastofa „RÚV“ sé í liði, og raunar í sama liðinu árum og áratugum saman.
Stundum er sagt að bjálfalegt sé að ræða þessar staðreyndir um „RÚV“ og enn vonlausara við það. Þar á bæ skilji enginn þessar athugasemdir. Þær virki eins á þá þar og ef fundið væri að því við Skagamenn að þér haldi alltaf með Akranesi.
En því má ekki gleyma að það eru engin lög sem segja Skagamönnum að þeim beri að vera hlutlausum í fótbolta. Og þeir fá ekki marga milljarða frá almenningi árlega til þess að þeir hafi ekki þann sama almenning að fífli,“ segir ennfremur í bréfinu.
Skrítin verðlaunaafhending
Og Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra fær sína sneið í Reykjavíkurbréfinu fyrir frumvarp sitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla:
„Það er ekkert að slíkri framgöngu þegar pólitískir þröngvitringar, æsifréttamenn eða kunnir „doddar“ í erindrekstri eiga í hlut, eins og þeir virðast sem ráða fyrir „Kjarnanum“ eða æsiútgerðinni „Stundinni,“ og fjölmiðlum sem ríkisstjórnin telur, eftir langa yfirlegu, að rétt sé að styðja af fimmfalt meira afli eða meir en raunverulega fjölmiðla.
Það má segja að slík furðuniðurstaða falli vel að því að ríkisstjórnin heldur áfram og eykur á hverju ári, stuðning upp á fjölmarga milljarða við opinbera stofnun sem leynir því hvergi að hún dregur vagninn fyrir þau stjórnmálaöfl sem eiga stuðning þriðjungs þjóðarinnar þegar best lætur og leggur fæð á flesta hina. Stofnun sem á að lögum engan að styðja sérstaklega og umfram aðra og enn síður að hata sérstaklega.
Ríkisstofnun sem þannig gengst upp í því á hverjum degi að brjóta þau lög sem um stofnunina gilda.
Ekkert nema óræður ótti við eitthvað dulið og óskiljanlegt virðist ráða þeirri för.
Hræðsla er óheppilegur húsbóndi, það sýnir sagan með svo sárgrætilegum dæmum.
Og þetta síðasta svo ömurlega vel,“ segir Davíð Oddsson í Reykjavíkurbréfi sínu.