Sjálft réttarríkið er undir — skipa þarf Landsrétt upp á nýtt

Landsréttur.

„Það ætti að vera nokkuð ljóst af niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu að Landsrétt þarf að skipa uppá nýtt, í heild sinni, með lögmætum hætti,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður.

„Til þess þurfum við að fá nýja lagasetningu sem tekst á við þessa stöðu og kemur áfrýjun dómsmála fyrir hjá Hæstarétti þar til leyst hefur verið úr þessu,“ segir hann.

Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður.

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður segir að dómur MDE frá í morgun hafi verið sprenging, sem þó hafi ekki komið algerlega á óvart.

„Nú þurfa íslenskir stjórnmálamenn að bretta upp ermar og eyða hratt þeirri ringulreið sem ríkir í íslensku dómskerfi. Það er fullkomlega ófært að áfrýjunardómstóll landsins, hinn nýi Landsréttur, hangi í lausu lofti. Það verður að ýta pólitísku þrasi til hliðar þegar sjálft réttarríkið er undir,“ segir hann.

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður.