Sjóða þarf vatn í Borgarfirði vegna skjálftans á Reykjanesi í gærkvöldi

Aukning á gruggi varð í vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni í kjölfar jarðskjálftans í gærkvöldi, að því er segir í tilkynningu frá Veitum. Grábrókarhraun er úfið apalhraun, sem rann fyrir um 3400 árum í Norðurárdal í Borgarfirði.

„Svona aukning getur minnkað vatnsgæði en verið er að taka sýni til staðfestingar. Í varúðarskyni er viðkvæmum neytendum bent á að sjóða neysluvatn til drykkjar en óhætt er að nota vatnið til annara þarfa. Vatnið er gegnumlýst til þess að koma í veg fyrir óæskilegar örverur en virkni lýsingar getur minnkað við aukið grugg.

Vatnsbólið þjónar Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Borgarnes fær vatn frá Seleyri og Hafnarfjalli og ná tilmælin því ekki til íbúa og fyrirtækja í Borgarnesi.

Vatnsból Veitna í Grábrókarhrauni er viðkvæmara fyrir skjálftavirkni en önnur vatnsból okkar og hafa sérfræðingar Veitna verið að störfum í alla nótt. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands er að taka sýni til þess að staðfesta vatnsgæði og munu niðurstöður liggja fyrir á morgun.

Til að tryggja brunavarnir er ekki unnt að taka vatnsbólið úr rekstri,“ segir ennfremur í tilkynningunni.