Sjötta barnið á leiðinni: Fyrsti forsætisráðherrann í 250 ár til að gifta sig

Boris Johnson, hinn litríki og geysivinsæli forsætisráðherra Breta, trúlofaðist unnustu sinni Carrie Symonds skömmu fyrir áramót og þau eiga nú von á barni snemmsumars og munu ganga í hjónaband síðar á árinu. Þetta var tilkynnt nú síðdegis.

Breskir fjölmiðlar eru spenntir yfir tíðindunum, enda forsætisráðherrann litríkur með eindæmum og einkalíf hans sömuleiðis. Fyrr í mánuðinum var gengið formlega frá skilnaði hans við fyrrverandi eiginkonu, en þetta verður þriðja hjónaband hans og hið fyrsta hjá sitjandi forsætisráðherra í Downingsstræti 10 í 250 ár.

Boris Johnson er fimm barna faðir og 55 ára að aldri, en Symonds er 31 árs. Hún er yngsti maki forsætisráðherra í Bretlandi í 173 ár.