SJS eða SDG: Nútímalegar vinnuaðstæður eða Alþingi sett í kassa?

Fyrsta skóflustungan að nýbyggingu Alþingis var tekin í dag, 4. febrúar, og markar hún formlegt upphaf framkvæmda við nýbygginguna á Alþingisreit. Byggingin er þjónustukjarni sem í fyllingu tímans mun sameina á einum stað alla starfsemi nefndasviðs, skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstöðu þingflokka o.s.frv.

Hlé var gert á þingfundi á meðan Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri tóku fyrstu skóflustunguna. Að henni lokinni var þingmönnum, starfsfólki og öðrum gestum boðið upp á kaffi og kökur í Skála.

Á meðal gesta voru fyrrverandi forsetar Alþingis, arkitektar og aðrir hönnuðir og fulltrúar Framkvæmdasýslu ríkisins.

Steingrímur J. lauk miklu lofsorði á fyrirhugaða byggingu í ræðu sinni og sagði þetta mestu framkvæmd á vegum Alþingis í 140 ár, eða frá því Alþingishúsið sjálft reis á árunum 1880–1881.

„Sú framkvæmd var reyndar risavaxin á þáverandi mælikvarða landsins. Fjárlög voru þá samþykkt til tveggja ára í senn og í frumvarpi því sem varð að lögum 26. ágúst 1879 fyrir árin 1880 og 1881 hljóðuðu tekjur Íslands (eins og það var orðað) og gjöld upp á 777 þúsund, 825 krónur og 20 aura. Á hvoru ári um sig voru umsvifin sem sagt tæpar 390 þúsund krónur, en þinghúsið kostaði 120 þúsund. Þ.e. tæpan þriðjung árlegra umsvifa ríkisins eins og þau voru á þeim tíma. Rétt er auðvitað að geta þess að þá var verið að byggja fyrir hvort tveggja í senn Alþingi og söfn landsins, en stærðargráðan var engu að síður þessi.

En hér mun nú rísa á næstu fjórum árum um 6000 fermetra bygging sem mun sameina á einum stað, undir einu þaki, skrifstofur fyrir alla þingmenn, aðstöðu fyrir þingflokka, fundaherbergi nefnda og vinnuaðstöðu starfsmanna þeirra, auk funda og ráðstefnuaðstöðu og margt fleira. Byggingin verður tengd nær öllum öðrum byggingum Alþingis þannig að innan gengt verður til Skála og þinghússins sjálfs auk húsalengjunnar hér við Kirkjustræti.

Kostnaðaráætlun fyrir bygginguna sjálfa er upp á 4,4 milljarða króna að viðbættum verðbótum á byggingartíma. Af byggingunni mun leiða mikið hagræði og sparnaður til lengri tíma litið, því leiga á fjölmörgum stöðum hér í Kvosinni á mishentugu húsnæði er óhentugt og dýrt úrræði. Mest um vert er þó að hér verða skapaðar nútímalegar og fyrsta flokks vinnuaðstæður fyrir þingmenn og ekki síður starfsfólk Alþingis. Hér verða góðar aðstæður til að taka á móti gestum sem til Alþingis og þingnefnda koma og Alþingi verður mun betur í stakk búið til að halda ýmis konar fundi og minni ráðstefnur.

Tveir fyrstu verkþættirnir eru þegar umsamdir. Þ.e. steinkápan utan á bygginguna en litbrigði í íslensku bergi munu setja á hana sterkan svip og svo jarðvegsvinna hér í grunni byggingarinnar sem hefst á næstu dögum. Útboð fyrir bygginguna sjálfa verður svo auglýst í vor og uppsteypa hefst í haust,“ bætti Steingrímur við.

Verktakafyrirtækið Urð og grjót ehf. sér um jarðvegsvinnu en það átti lægsta tilboð í þann verkþátt framkvæmdanna þegar hann var boðinn út sl. haust.

S. Helgason átti lægsta tilboð í vinnslu á steinklæðningunni sem verður utan á húsinu en sú vinna var boðin út í ágúst 2019.

Útboð í vinnu við aðalbyggingu og tengiganga verða auglýst í vor og er gert ráð fyrir að uppsteypa hefjist í haust. Verklok eru áætluð í febrúar 2023. 

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingarframkvæmdunum. Hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreitnum var haldin árið 2016. Alls bárust 22 tillögur og hlutu Arkitektar Studio Granda fyrstu verðlaun.

Hræðilegt hvernig farið hefur verið með gamla miðbæinn

Óhætt er að segja, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, horfi öðrum orðum á hina væntanlegu stórbyggingu Alþingis. Hann segir í pistli á heimasíðu sinni í dag, að hræðilegt sé að horfa upp á hvernig farið hefur verið með gamla miðbæinn í Reykjavík á undanförnum árum.

„Upp úr aldamótum voru uppi miklar hugmyndir um að rífa sem mest af því gamla sem gerir miðbæinn sérstakan og troða þar inn eins mörgum rúmmetrum af steinsteypu, stáli og gleri og mögulegt væri. Áformin náðu hámarki rétt fyrir bankahrunið en á sama tíma náðum ég og margir aðrir talsverðum árangri í að berjast fyrir verndun þessarar minnstu sögulegu höfuðborgarbyggðar í Evrópu.

Mér þótti alltaf undarlegt að þurfa að standa í slíkri baráttu á fyrstu árum 21. aldar, mörgum áratugum eftir að flestar aðrar borgir, með miklu stærri sögulega byggð, hurfu frá niðurrifsstefnunni sem einkenndi áratugina eftir seinni heimstyrjöld.

Í fjármálakrísunni hrundi verð lóða og „byggingarréttar“. Með því gafst einstakt tækifæri fyrir borgina til að leiðrétta fyrri mistök. Því miður var það tækifæri ekki nýtt og ekki leið á löngu áður en ástandið versnaði til muna. Hvergi virðist mega vera heildstæð þyrping húsa í sígildum stíl, hvort sem það er steinsteypuklassík, timburhús eða blanda þessara sögulegu íslensku húsagerða.

Ekki eru mörg ár síðan stórbruni á horni Lækjargötu og Austurstrætis eyðilagði nokkur af sögufrægustu húsum miðbæjarins. Þá var tekin ákvörðun um að endurgera húsin. Erfitt er að ímynda sér að slík ákvörðun yrði tekin núna.

Hið merka gamla verkamanna- og iðnaðarhverfi Reykjavíkur, Skuggahverfið, er nú horfið. Meðfram Laugavegi og sunnan og norðan götunnar hverfa gömlu húsin eitt af öðru og lóðirnar eru fylltar á alla kanta með steinsteypukumböldum. Gamlar verslanir eru hraktar úr miðbænum ein af annarri. Brátt verður fátt eftir fyrir ferðamennina að skoða þegar þeir fara út af hótelum sínum nema önnur hótel (eða önnur ný hús byggð samkvæmt alþjóðlegri tísku síðustu ára).

Elstu byggð höfuðborgarinnar, Kvosinni, hefur ekki verið hlíft. Aldeilis ekki. Við svo kallað Hafnartorg, sem stendur ofan á víkinni sem Reykjavík er kennd við og liggur að elstu götum borgarinnar, er risin þyrping stórhýsa sem ættu betur heima í nýju skrifstofuhverfi í jaðri Berlínar eða Birmingham.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Eyðilegging „Nýhafnarinnar“ í Reykjavík, Lækjargötunnar, heldur áfram. Þegar leyfi var veitt til að rífa gamla Iðnaðarbankann og auka byggingarmagn á lóðinni var það gert til að liðka fyrir byggingu húss sem myndi styrkja heildarmynd götunnar. Þau áform voru svo sett í pappírstætarann en byggingarmagn enn aukið svo hægt væri að koma fyrir „nútímalegu“ hóteli á horninu sem umfram önnur myndar andlit miðbæjarins. Hótelið var byggt yfir skála frá landnámstíð. Steinsnar frá er verið að byggja hótel yfir hluta af gamla kirkjugarðinum í Reykjavík og upp að húsum Alþingis. -Framkvæmd sem erfitt er að ímynda sér að hefði verið leyfð í nokkru öðru Evrópulandi.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis reyndi að grípa inn í með frumvarpi um skipulag á Alþingisreitnum. Ég og Jón Gunnarsson þingmaður endurfluttum frumvarpið án þess að það fengi að komast til afgreiðslu. Enn verra er þó að nú hyggst Alþingi taka virkan þátt í að steypa yfir miðbæinn.

Í dag stendur til að taka fyrstu skóflustunguna að nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis á lóð þar sem áður stóð fjölbreytileg þyrping gamalla timburhúsa. Á lóðinni fundust minjar frá einni elstu byggð á Íslandi en þær verða nú fjarlægðar til að rýma fyrir bílastæðakjallara. Minjarnar hefði hugsanlega mátt varðveita í nýju húsi. Aðalatriðið var þó að nýbyggingin væri til þess fallið að styrkja heildarmynd byggðarinnar í miðju hins agnarsmáa gamla miðbæjar höfuðborgar Íslands.

Á sínum tíma samþykkti ríkisstjórnin tillögu um að óbyggt hús sem Guðjón Samúelsson teiknaði fyrir þennan stað yrði reist fyrir Alþingi. En svo tók kerfið völdin og nú ætlar vinnustaðurinn minn, Alþingi Íslendinga, að taka þátt í steinsteypukassavæðingu miðborgarinnar.

Húsið sem til stendur að reisa er teiknað af mjög færum arkitektum (sem hafa unnið afrek bæði í gömlum stíl og nýjum) en það ætti betur heima í Borgartúni en í miðpunkti gamla bæjarins í Reykjavík. Á tölvugerðum myndum virðist húsið bjart og nánast litríkt (röndótt). En eins og dæmin sanna er lítið að marka tölvugerðar myndir af slíkum húsum (klassísk hús líta jafnan betur út í raunveruleikanum en á teikningum en tískuhús mun síður),“ segir hann ennfremur.