Það styttist í skötuveisluna miklu hér á landi, enda Þorláksmessan eftir aðeins þrjá daga og skötuilmur er þegar farinn að berast út um allt.
Þorláksmessuskatan er fyrir löngu orðin hluti af jólahaldi hjá mörgum Íslendingum og virðist unga kynslóðin ekkert gefa þeim eldri eftir í þessari fallegu íslensku jólahefð.
Starfsfólk Fiskbúðarinnar á Sundlaugarvegi í Reykjavík var á fullu í gær að verka og skera niður skötu. Viljinn náði tali af Arnari Elíssyni sem hefur starfað í Fiskbúðinni í rúmlega 13 ár, en hann segir skötuvenjur íslendinga hafa þróast töluvert undanfarin ár.
„Við sjáum að fastakúnninn er byrjaður að panta skötuna fyrr, fólk er í auknum mæli að fá hana vakúm-pakkaða til þess að senda erlendis og svo eru fleiri vinnustaðir og aðrir að halda hóf í kringum skötuhefðina,“ segir hann.
Verður sífellt stærri jólahefð
„Hin íslenska skötuveisla er að færast frá því að vera prívat samkoma, yfir í það að verða stærri viðburður í hinu almenna rými. Fólki finnst gaman að hafa og eiga þessa jólahefð og geta deilt henni með öðrum,“ bætir Arnar við.
Í Fiskbúðinni á Sundlaugarvegi hefur skatan alltaf verið verkuð, söltuð og skorin niður á staðnum, en fiskbúðin en búin að vera starfrækt í 71 ár.
Arnar segir marga leggja leið sína í fiskbúðina þótt þeir þurfi að ferðast langa vegalengd. „Hjá sumum er það fastur punktur í jólahaldinu að koma við hjá okkur. Fólk kemur ár eftir ár að kaupa skötuna. Fyrir þá sem ekki borða skötu er saltfiskurinn okkar mjög vinæll og bragðgóður, svo það er engin ástæða að sleppa skötuveislunni, þótt svo að skatan sé ekki í uppáhaldi. Hér eru vanir menn sem verka hana og kæsa og leggja mikinn metnað í þetta.“

Í skötuveislum nútímans er fólk líka að fá sér humar og síld og auðvitað rúgbrauð, að sögn Arnars.
„Við gerðum allar nauðsynlegar ráðstafanir og stöndum vaktina alla helgina í búðinni. Við erum með ljúffenga humarsúpu, risahumar frá Kanada og fleira góðgæti. Við vorum um árabil eina fiskbúðin í Reykjavík sem seldi eigin verkaða síld, hún kemur frá Fáskrúðsfirði og þykir algjört hnossgæti,“ segir Arnar og brýnir hnífinn glaður í bragði.
Leifar frá katólskri jólaföstu
Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson segir að ósennilegt sé að skata hafi í upphafi verið hugsuð sem hátíðarmatur. Þvert á móti sé líklegra að hún hafi þótt fátæklegur matur og ekki við hæfi húsbænda.
„Í upphafi kann þetta einfaldlega að hafa verið ómerkilegur hversdagsmatur rétt fyrir stórhátíðina, en í fiskátinu kynni einnig að gæta leifa af katólskri jólaföstu eða sérstakri Þorláksmessuföstu,“ segir þar.
Skötuát tíðkaðist einkum um landið vestanvert. Var skata alþekktur Þorláksmessumatur með allri ströndinni frá Vestfjörðum og suður fyrir Faxaflóa. „Eindregnast var og er skötuát þetta á Vestfjörðum,“ segir í Sögu daganna, „Þótti mörgum Vestfirðingum meðal heimildamanna þjóðháttadeildar sem lyktin af skötustöppu væri fyrsta ákennilega merki þess að jólin væru í nánd.“