Skipulagðir glæpahópar sem sýna af sér sífellt meiri ofbeldishneigð eru mesta ógn við öryggi Evrópubúa, þeir eru hættulegri en hryðjuverkamenn eða farandfólk. Þetta koma fram í máli yfirmanna evrópskra lögregluliða á ráðstefnu í Haag sl. þriðjudag.
Að mati sérdeildar ítölsku lögreglunnar gegn mafíunni og Evrópulögreglunnar, Europol, láta hópar úr ítölsku mafíunni, Albanir, gengi frá Austur-Evrópu og mótórhjólagengi mest að sér kveða við lögbrot og ofbeldi hvers konar í Evrópu. Þá reyni hópar frá Asíu, Afríku og Suður-Ameríku einnig að ná skipulegri fótfestu á evrópskum glæpamarkaði sem talinn er velta 110 milljörðum evra á ári. Fram kom að samvinna í glæpaheiminum eykst jafnt og þétt.
„Eins og málum er nú háttað steðjar mesta hættan að innra öryggi á EES-svæðinu frá skipulögðum glæpahópum,“ sagði Jari Lukku, yfirmaður miðstöðvar Europol sem fjallar um alvarlega og skipulagða glæpastarfsemi.
Embættismennirnir sögðu að skipulögð glæpastarfsemi hefði undanfarin ár „fallið í skuggann“ í Evrópu vegna hryðjuverkaárása og mikilla viðfangsefna sem tengjast ferðum farand- og flóttafólks. Nú yrði hins vegar að snúast gegn þessum ófögnuði með aukinni samvinnu lögregluliða í ólíkum löndum. Liukku sagði: „Við verðum að eiga alþjóðlegt samstarf til að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi vegna þess að hóparnir sem hana stunda virða ekki landamæri.“
Giuseppe Governale, yfirmaður rannsóknardeildar ítölsku lögreglunnar gegn mafíunni, sagði að Cosa Nostra frá Sikiley, ‘Ndrangheta frá Kalabríu og Camorra frá Napólí væru enn stærstu glæpasamtökin. Vandamálið væri þó víðtækara: „Þetta er evrópskt vandamál,“ sagði hann.
Hann taldi brýnt að tekist yrði skipulega á við peningaþvætti til að skapa fjársvelti innan glæpahópanna. „Peningaþvætti hefur mikil samfélagsleg áhrif, heilu greinarnar glíma við vanda vegna þess og það kann að ógna þjóðarbúskapnum og þjóðaröryggi.“
Á ráðstefnunni kom einnig fram að aukið ofbeldi væri eitt af einkennum þess sem nú gerðist.
Var þess sérstaklega getið að ofbeldisverkum hefði fjölgað mikið í Svíþjóð. Jale Poljarevius frá sænsku lögreglunni líkti ástandinu við „lágspennu hernað“. Árið 2011 hefðu um 15 fallið fyrir skotvopnum árlega í Svíþjóð, þeir hefðu verið rúmlega 40 árið 2018 og fyrstu þrjá mánuði 2019 væru þeir orðnir 12 í 67 skotbardögum – auk þess hefði einn fallið fyrir sprengju en alls væru sprengjuárásir orðnar 47 á árinu.
„Svíar hafa aldrei kynnst tölum af þessu tagi,“ sagði Poljarevius.
Í desember 2018 skýrði Europol frá því að um 90 félagar í ‘Ndrangheta-glæpahópnum hefðu verið handteknir í samræmdum aðgerðum í sex löndum Evrópu og Suður-Ameríku.
Af vardberg.is, birt með leyfi.