Skýrsla greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi er kolsvört og þar kemur margt fram sem óhuggulegt er að verða vitni að. Þótt ýmsir þættir þessa hafi verið í umræðunni má segja að þeir séu staðfestir í þessari skýrslu.
Þetta sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra, í þingræðu á föstudag. Hann benti á að niðurstaða greiningardeildarinnar sé sú að skipulega sé unnið að misnotkun opinberra bótakerfa, vinnumiðlunar, móttökukerfa vegna flóttafólks og hælisleitenda auk margvíslegrar félagslegrar þjónustu sem stendur til boða.
„Greiningardeildin segir að margir skipulögðu glæpahópanna sem hafa náð fótfestu hér á landi komi frá Austur-Evrópu, Póllandi, Litháen, Rúmeníu og Albaníu, t.d. viti deildin um þrjá hópa frá sama Austur-Evrópuríkinu,“ sagði Jón ennfremur og vitnaði til þess sem kemur fram í skýrslunni, að rannsóknir lögreglu leiði í ljós að einstaklingum sem tengjast þessum þremur hópum hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi m.a. á grundvelli kynhneigðar. Nokkrir þessara karlmanna frá íslömsku ríki hafi verið kærðir fyrir kynferðislega áreitni gagnvart konum hér á landi.
„Kennitölur og bankareikningar eru grunnþættir í peningaþvætti og tilfærslum á fjármunum sem aflað hefur verið með skipulagðri brotastarfsemi. Mál sem lögregla hefur haft til rannsóknar sýna að nokkrir meðlimir þessara hópa hafi nýtt sömu kennitölu og þannig m.a. getað leynt veru sinni í landinu en stundað „svarta vinnu“ á sama tíma. Leiðtogi eins hópsins hefur á síðustu misserum sent tugi milljóna króna úr landi. Sami maður hefur þegið félagslega aðstoð af margvíslegu tagi, þ.á m. fjárhagsaðstoð á sama tíma,“ sagði Jón ennfremur og sagði um stóralvarlegt mál að ræða og við þessu verði að bregðast.