Skólastarf í leik- og grunnskólum með eðlilegum hætti frá og með 4. maí

Fyrirkomulag skólastarfs og annarloka á öllum skólastigum í vor var til umfjöllunar á samráðsfundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra með fulltrúum skólasamfélagsins sem lauk fyrir skömmu. Í samráðshópi lykilaðila í menntakerfinu sem fundað hefur reglulega síðustu vikur eru m.a. fulltrúar leik-, grunn-, framhalds- og háskóla, framhaldsfræðslu, skólastjórnenda, sveitarfélaga, kennaraforystunnar og nemenda.

Aflétting takmarkana á skólastarfi var kynnt á blaðamannafundi í hádeginu en þar kom fram að stefnt sé að því að skólastarf í leik- og grunnskólum verði með eðlilegum hætti frá og með 4. maí nk. og þá verði einnig heimilt að opna framhalds- og háskólabyggingar að nýju sem og aðstöðu framhaldsfræðslu og símenntunar.

Fjöldatakmarkanir verða þó í gildi í þeim byggingum þar sem hámarksfjöldi í hverju rými er 50 manns og lágmarksfjarlægð milli fólks skal vera minnst tveir metrar.

Mikilvægt er að allir, þar á meðal skólarnir, haldi áfram að huga vel að sóttvörnum og hreinlæti, hugi vel að heilsu nemenda sinna og starfsmanna og haldi áfram vöku sinni gagnvart mögulegu smiti.

„Þetta eru gríðarlega ánægjulegar fréttir fyrir skólastarf í landinu og skólasamfélagið fagnar þeim. Það er hugur í fólki og allir reiðubúnir að leggjast á eitt svo ljúka megi þessari önn með sem allra bestum hætti fyrir nemendur á öllum skólastigum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Unnið er að uppfærslu upplýsingasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um skólastarf og COVID-19 í ljósi þessa. Hægt verður að nálgast svör við algengustu spurningum um afléttingu takmarkananna á íslensku, ensku og pólsku.

Sjá nánar á vef heilbrigðisráðuneytisins.