Skorað á alþingismenn að hafna þriðja orkupakka ESB

Samtökin Orkan okkar hafa í dag sent eftirfarandi áskorun á alla þingmenn:

„Ágætu alþingismenn, segið nei við staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 97/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).

Beinið þeim tilmælum til sameiginlegu EES-nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu þriðja orkupakkans enda er Ísland ekki tengt raforkumarkaði ESB.“

Í yfirlýsingu frá samtökunum, sem eru þverpólitísk og hafa innan sinna raða m.a. áhrifafólk úr Vinstri grænum og Framsóknarflokki, segir að vefsíða hafi opnað núna kl. 11 og þar sé hægt að taka þátt í áskorun til alþingismanna, sjá www.orkanokkar.is

Í greinargerð með áskoruninni segir:

„Ódýr og örugg raforka er undirstaða góðra lífskjara í landinu. Raforkan er afurð náttúruauðlinda landsins okkar og afar mikilvægt að allar ákvarðanir sem teknar eru í raforkumálum þjóni hag þeirra sem hér búa.

Í dag eru 90% raforkuframleiðslunnar í eigu þjóðarinnar, hrein og endurnýjanleg. Raforkuverð er hér mun lægra og stöðugra en almennt í ríkjum ESB. Þetta er einstök og öfundsverð staða en hana þarf að verja. Markmið orkupakkanna er að efla vald ESB í orkumálum á svæðinu, auka markaðsvæðingu og samtengingu raforkukerfa milli landa.

Varast ætti að innleiða löggjöf sem sniðin er fyrir aðstæður í orkumálum sem eru mjög frábrugðnar þeim sem við búum við á Íslandi.

Með orkupökkum ESB skerðist sjálfsákvörðunarréttur Íslands í raforkumálum. Löggjöfin er samin af ESB og tekur því ekki mið af vilja íslenskra kjósenda, auk þess sem hluti löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds í orkumálum flyst úr landi. Orkupakkar ESG grafa því undan sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar um eigin auðlindir og geta haft ófyriséð áhrif á lífskjör í landinu. Þessi þróun er líka í hrópandi mótsögn við afstöðu almennings og yfirlýsingar sumra stjórnmálaflokka um að ekki skuli framselja vald í orkumálum til erlendra stofnana.

EES-samningurinn hefur frá upphafi verið talinn á gráu svæði gagnvart stjórnarskránni. Með þriðja orkupakkanum er of langt gengið að mati fræðimanna og það á einnig við þótt Ísland sé ekki tengt öðrum löndum með grunnvirkjum eins og sæstreng.

Lögmenn sem fjallað hafa um málið fyrir ríkisstjórnina segja um þetta m.a.: „Það breytir því þó ekki að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenskan landsrétt nú, nema hann standist stjórnarskrána.“ – Heimild: Stefán Már Stefánsson, Friðrik Árni Friðriksson Hirst, Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB, bls. 24.

Ólíkt Noregi og Liechtenstein er Ísland ekki tengt raforkumarkaði ESB og ætti því að krefjast undanþágu frá skyldu til að innleiða löggjöf ESB um raforkumarkaðinn. Nú þegar eru fordæmi og heimildir fyrir slíkum undanþágum í EES-samningnum. Ísland er t.d. undanþegið innleiðingum laga um jarðgas, skipaskurði og járnbrautir. Samið er um slíkar undanþágur í Sameiginlegu EES-nefndinni.

Utanríkisráðherra hefur nú lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart þriðja orkupakka ESB en boðar um leið að löggjöfin verði innleidd í íslensk lög með fyrirvara. Verði þessi leið farin gæti hver sem er kært íslensk stjórnvöld til ESA vegna rangrar innleiðingar á EES-reglum. Af álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna má álykta að samþykki Alþingi ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella þriðja orkupakkann inn í EES samninginn, þá verður Ísland að innleiða löggjöf þriðja orkupakkans eins og hún er. Einhliða fyrirvarar eða breytingar af hálfu Alþingis munu falla undir samningsbrot.

„Stjórnskipulegum fyrirvara Íslands verður að jafnaði aflétt með því að Alþingi samþykki ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með þingsályktun. Ef fyrirvaranum er aflétt, þá öðlast ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gildi og verður skuldbindandi fyrir Ísland að þjóðarétti í samræmi við ákvæði EES-samningsins, sem m.a. leggur á Ísland skyldu að þjóðarétti til að innleiða viðkomandi ESB-gerðir í landsrétt.“ – Heimild: Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson. (2019, 19. mars), Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB, bls. 24.

Í tilvitnaðri álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna kemur einnig fram á bls. 24 að hafni Alþingi því að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans, þá fari málið aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Á þeim vettvangi hefjist viðræður og leitast verði við að finna lausnir. Í þeim viðræðum þurfa íslensk stjórnvöld að óska eftir skýrri undanþágu Íslands frá innleiðingu regluverks ESB í orkumálum enda hefur Ísland ekki tengingu við markaðinn. Slík undanþága gæti verið auðsóttari nú en áður m.a. vegna þess að orkumálaráðherra ESB hefur lýst því yfir að þriðji orkupakkinn hafi enga þýðingu á Íslandi.

Þess vegna skora samtökin Orkan okkar á Alþingismenn að hafna þriðja orkupakkanum og beina um leið þeim tilmælum til Sameiginlegu EES-nefndarinnar að veita Íslandi undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans í landsrétt á þeirri forsendu að landið er ekki tengt innri raforkumarkaði ESB.

Í dag opnaði Orkan okkar vefsíðuna www.orkanokkar.is þar sem almenning býðst að skrifa undir áskorun til þingmanna um að hafna þriðja orkupakkanum. Á vefsíðunni er einnig að finna upplýsingar um samtökin, rök gegn orkupakkanum, gögn um orkupakkann og annál frétta og greina sem tengjast málinu,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.