Kjósendur Flokks fólksins eiga flokkinn með málefnunum, sem flutt eru hverju sinni af talsmönnum flokksins, en ekki formaður flokksins, Inga Sæland. Fyrrverandi varaformaður flokksins og einn stofnenda, Séra Halldór Gunnarsson í Holti, skorar á kjósendur flokksins að fylgja þeim Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni „til áframhaldandi baráttu innan Miðflokksins fyrir góðum málefnum til hagsbóta fyrir land og þjóð.“
Þetta kemur fram í aðsendri grein Halldórs í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að þau Inga hafi verið formaður og varaformaður Flokks fólksins. Þau hafi náð 3,5% fylgi í kosningunum haustið 2016 og fjármögnun til að greiða skuldir framboðsins og möguleika á áframhaldandi starfi.
„Þegar boðað var til kosninga ári síðar, taldi ég nauðsynlegt að styrkja framboðið með sterkum og vel kynntum einstaklingum til framboðs og beitti ég mér fyrir því að fá til liðs við okkur dr. Ólaf Ísleifsson hagfræðing og Karl Gauta Hjaltason, fyrrverandi sýslumann í Vestmannaeyjum, sem leiddu lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og í Suðurkjördæmi.
Við Ólafur unnum saman áhersluatriði flokksins í kosningabæklingnum og náði flokkurinn mjög góðum árangri í kosningunum eða 6,9% atkvæða. Allt gerðist þetta með góðri frammistöðu frambjóðenda og góðs kosningastjóra Edithar Alvarsdóttur og mjög margra dyggra stuðningsmanna og sérstakri frammistöðu formanns flokksins í sjónvarpinu kvöldið fyrir kosningar, með sínu „útspili“. Karl Gauti náði hæsta atkvæðahlutfalli af þeim fjórum, sem kjörnir voru alþingismenn, með 8,9% atkvæða,“ segir hann.
Sinntu vel þingstörfum
„Við upphaf þingstarfa var Ólafur kosinn þingflokksformaður og Karl Gauti til vara. Lögðu þeir fram vönduð lagafrumvörp, þingsályktanir og fyrirspurnir til ráðherra, svo eftir var tekið. Leyfi ég mér að fullyrða að frumvörp Ólafs um tangarsókn gegn verðtryggingunni, lyklafrumvarp og hækkun skattleysismarka í 300 þús kr. á mánuði, hafi verið þýðingarmestu mál þingsins fyrir þá sem verst eru settir. Kostnaðarauki við hækkun skattleysismarka var lítið hærri en framkomnar skattalækkunartillögur Sjálfstæðismanna á millitekjur.
Sat ég marga þingflokksfundi og varð aldrei var við annað, en að þingflokkurinn starfaði saman einhuga. Rætt var um málflutning og fólk boðað til fundar við þingflokkinn, til að fylgja eftir baráttumálum öryrkja og þeirra eldri borgara, sem verst eru settir. Auk þessa mættu þingmennirnir á sunnudagsfundum flokksins í „vöfflukaffið“ og fræddu fundarmenn um þingstörfin og svöruðu fyrirspurnum. Karl Gauti gaf út „Vöfflufréttir“, lítið fréttablað um þingstörfin, sem hann afhenti á þessum fundum, sem fundarmenn biðu spenntir eftir að fá.
Á landsfundi flokksins 8.-9. september sl. báru þessir tveir þingmenn uppi málefnastarfið. Ólafur hafði framsögu fyrir stjórnmálaályktun flokksins og ályktun efnahags- og utanríkisnefndar og Karl Gauti hafði framsögu fyrir ályktun allsherjarnefndar. Þessar ályktanir má lesa á heimasíðu Flokks fólksins. Hinir þingmenn flokksins störfuðu einkum í velferðarnefnd. Engin ályktun frá störfum þeirrar nefndar var birt á heimasíðunni,“ bætir Halldór við.
Klaustursmálið
„Ólögleg upptaka 20. nóvember sl. á veitingahúsi, sem kom fram átta dögum síðar, nær samhljóða í upptöku á þremur fjölmiðlum, klippt og valið út, það sem ósmekklegast var frá tveimur ölvuðum mönnum, en sleppt flestu öðru, sem kom frá hinum, ótímasett hvenær talað var og hverjir væru þá viðstaddir. Sex þingmenn sakfelldir og þingforseti, sem bað síðan afsökunar á framferði þeirra allra, óháð því hvað menn sögðu eða þögðu. Ég hef áður greint frá því hvers vegna þingmenn Flokks fólksins voru þarna. Þeim hafði m.a. ofboðið siðleysi formanns flokksins, sem vildi hafna móttöku hækkaðra fjárframlaga til stjórnmálaflokka en um leið að taka við þeim fjármunum fyrir hönd flokksins. Eftir þá uppákomu sem þar varð, hittu þeir Miðflokksmenn að loknum málflutningi á þingi, á umræddu veitingahúsi, þar sem ekkert var eftir þeim haft til hnjóðs og því síður að þeir ætluðu að ganga til liðs við Miðflokkinn. Af þessu óljósa tilefni var þeim vikið úr Flokki fólksins af formanni og meirihluta í sjö manna stjórn. Slíkur brottrekstur úr flokki á sér ekki fordæmi í lýðræðisríki!
Fyrir eindregna áeggjan skrifstofustjóra Alþingis sögðu þeir sig úr þingflokknum. Ég tel að skrifstofustjórinn hafi þar farið út fyrir sitt starfssvið og skjöplast í túlkun sinni á þingskaparlögum. Enginn gat rekið þá úr þingflokknum, aðeins meirihluti þingflokksins sjálfs, sem var ekki fyrir hendi í þessu tilviki. Síðan gerist það, að þingforseti útilokar þessa tvo þingmenn frá umræðu í upphafi þingfundar eftir jólaleyfi, þrátt fyrir að þeir hafi fengið boð skrifstofustjóra um þátttöku og svarað því jákvætt.
Sóknarfærið
Við þessar aðstæður taldi ég einsýnt að góð málefnabarátta þeirra ynnist ekki utan flokka og því síður með stuðningi tveggja þingmanna Flokks fólksins. Þegar þingforseti hafnaði því að dr. Ólafur Ísleifsson fengi að tala fyrir hönd tveggja þingmanna utan flokka, með þeirri skýringu að honum hefði ekki borist óskir um það, þá óskaði ég eftir fundi með formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, til að ræða um hugsanlega komu þessara þingmanna til Miðflokksins með þau mál, sem þeir hefðu flutt á landsfundi flokksins. Að loknum tveimur fundum fullvissaði Sigmundur mig um að þessum málum yrði fylgt eftir af Miðflokknum, kæmu þeir til liðs við flokkinn.
Í framhaldi fór ég á sunnudagsfund 3. febrúar hjá Flokki fólksins til þess að kanna möguleika á því að brottvikning þeirra yrði dregin til baka. En umræða þar bar engan árangur. Því átti ég fundi með þeim Ólafi og Karli Gauta, þar sem ég hvatti þá til að ganga til liðs við Miðflokkinn og undirbúa það með kjósendum sínum að þeir myndu hefja nýja sókn með þeim flokki. Þeir tóku misvel undir það. Karl Gauti sagðist aldrei hafa hugsað sér annað en að vinna fyrir Flokk fólksins að þeim málum sem hann hefði borið fram og talað fyrir. Niðurstaða þeirra varð fyrst ljós 20. febrúar sl. um að þeir myndu vilja hefja nýja sókn með Miðflokknum á grundvelli samkomulags um málefnin.
Kjósendur flokksins eiga flokkinn með málefnunum, sem flutt eru hverju sinni af talsmönnum flokksins, en ekki formaður flokksins. Ólafur og Karl Gauti hafa einarðlega í ræðum og blaðagreinum fylgt eftir baráttumálum flokksins og því vil ég skora á kjósendur flokksins, að fylgja þessum tveimur frábæru þingmönnum til áframhaldandi baráttu innan Miðflokksins fyrir góðum málefnum til hagsbóta fyrir land og þjóð.
Kjósendur flokksins eiga flokkinn með málefnunum, sem flutt eru hverju sinni, en ekki formaður flokksins. Ólafur og Karl Gauti hafa fylgt eftir baráttumálum flokksins. Fylgjum þeim til þeirrar baráttu,“ segir séra Halldór í Holti ennfremur.