Skúli blæs á neikvæðan orðróm og segir rekstur umfram væntingar

Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW air, hefur sent starfsfólki sínu tölvupóst þar sem hann bregst við fréttaflutningi og áhyggjum af fjárhagsstöðu félagsins og því hversu dregist hefur að ljúka viðræðum við Indigo Partners um kaup á félaginu.

Í bréfi sínu segir Skúli að byrjun ársins sé betri á flestum sviðum en gert hafi verið ráð fyrir. Tekjur í janúar hafi verið umfram áætlun, pantanir og sætanýting sömuleiðis fyrir tvo fyrstu ársfjórðunga 2019 og aukinn árangur sé að nást í sölu og markaðsstarfi.

Þessi árangur sé sérstaklega eftirtektarverður í ljósi endurskipulagningarinnar sem ráðist var í í desember sl. Veturinn hafi verið mjög erfiður, en hann geti fullvissað starfsfólk félagsins um að viðræðurnar við Indigo Partners gangi vel (eins og þeir viti sem koma beint að þeim). Unnið sé eftir skipulegri áætlun til framtíðar og það sé algjörlega eðlilegt að flóknar samningaviðræður um stórar fjárfestingar taki tíma — stundum meira en ráð hafi verið fyrir gert.

Hann kveðst gera sér grein fyrir að starfsfólkið sé spurt um þessi mál á degi hverjum og áfram megi búast við röngum orðrómi um stöðu félagsins, en hann sé sannfærður um að WOW air muni vaxa og dafna svo lengi sem það heldur áfram að bjóða frábær verð, góða þjónustu og koma farþegum sínum á réttum tíma og örugglega milli staða.

Að lokum segist Skúli hlakka til að fagna með starfsfólki sínu á árshátíð fyrirtækisins hinn 9. mars nk.