Skúli leitar allra leiða til að bjarga WOW air

Skúli Mogensen rær nú lífróður með WOW air, engum blöðum er lengur um það að fletta, þegar tilkynnt hefur verið að ekkert verði af mögulegri aðkomu Icelandair að rekstri félagsins.

Í kvöld birtist stutt tilkynning á fjárfestasíðu WOW air, þar sem skýrt er frá því að félagið eigi í viðræðum við lánadrottna um fjárhagslega endurskipulagningu þar sem skuldum væri breytt í eigið fé. Kemur þar fram að nánari grein verði gerð fyrir málinu á morgun.

 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vinnur Arctica Finance nú að því að safna 30 milljónum dollara, sem samsvarar tæplega 3,6 milljörðum króna, til að setja inn í rekstur WOW. Ljóst sé að það fé þyrfti að vera til reiðu án tafar.

Fréttablaðið segir viðmælendur sína telja nánast ómögulegt að Skúla og Arctica takist ætlunarverkið. Lex lögmannsstofa hefur verið skuldabréfaeigendum til ráðgjafar síðustu daga.

Samgönguyfirvöld fylgjast grannt með stöðu mála, enda er flugrekstrarleyfi WOW í ákveðnu uppnámi eins og staðan er núna og nauðsynlegt að fá stöðu félagsins á hreint sem allra fyrst.

Hagnast mjög vel af áhættusækni Skúla

Marinó G. Njálsson ráðgjafi fjallar um stöðu WOW í færslu á fesbókinni og segir mikilvægt að koma í veg fyrir fall fyrirtækisins.

„Ég sé víða talað um að almenningur eigi ekki að borga fyrir áhættusækni og ævintýramennsku Skúla Mogensen í rekstri WOW air. Ég hef ítrekað bent á að almenningur er ekki að tapa á WOW, heldur hefur hann grætt svo mikið, að gott svigrúm er til að koma í veg fyrir fall fyrirtæksins. Langar mig að sýna í stuttu máli hvernig ég fæ þetta út:

1. Hugsanlega þarf að leggja WOW til 15 ma.kr. svo fyrirtækið komist úr þessum vanda, en það myndi örugglega fylgja því sú kvöð að sá sem legði féð til yrði meirihluta eigandi fyrirtækisins. Þannig að væri það ríkissjóður, þá ætti hann skyndilega um 90% í fyrirtækinu, ef ekki meira.
2. WOW var stofnað 2011 og hóf starfsemi 2012. Frá þeim tíma hefur ferðamönnum fjölgað um ríflega 1,5 milljónir, ef ekki meira, í 2,3 milljónir á síðasta ári, þegar hlutur WOW var 40%.

Marinó G. Njálsson.

3. Árlegar tekjur þjóðarbúsins af ferðamönnum hafa farið stigvaxandi og hefur talan 5-6 hundruð milljarðar verð nefnd fyrir síðasta ár. Það af hafi tekjur ríkis og sveitarfélaga verið á að giska 100 ma.kr., ef ekki meira. Vissulega hefur kostnaður fylgt á móti, en hann hefur nýst öllum landsmönnum, ekki bara erlendum ferðamönnum. 40% af þeirri upphæð er þá 40 ma.kr. sem „almenningur“ fékk í fyrra vegna WOW. Svipaður fjöldi ferðamanna var 2017, en þá var hlutur WOW minni. Ekki er þó óvarlegt að tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga, frá því að WOW byrjaði að fljúga milli landa, séu um 120-150 ma.kr. vegna áhrifa af starfsemi WOW. Ekki slæmt, ekki slæmt!

Ég fæ ekki betur séð en að almenningur hafi bara hagnast mjög vel af áhætturekstri og ævintýramennsku Skúla Mogensen og sá hagnaður væri bara enn ágætur þó notaðir væru 15 ma.kr. af almannafé til að auka hlutafé í félaginu og koma því fyrir vind.

Ef WOW væri rútufyrirtæki eða heilsuræktarfyrirtæki, þá tæki ég undir að ekki eigi að nota almannafé til að bjarga því. Svo er bara ekki. Fyrirtækið er ein af gullgæsum íslensks þjóðfélags eða eigum við að segja óskabörnum,“ segir Marinó ennfremur.