Slæmt og dapurlegt að verða vitni að niðurlægingu MDE

Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og fv. þingmaður Vinstri grænna.

Það er slæmt og dapurlegt að verða vitni að niðurlægingu Mannréttindadómstóls Evrópu. Það sem er verst, eða öllu heldur mest ástæða til að hafa áhyggjur af, eru almenn viðbrögð innan þings sem utan og ekki síst í íslenskum fjölmiðlum eftir dóminn. Þar er tekin afstaða í óhugnanlega ríkum mæli eftir flokkspólitískum línum.

Þetta segir Ögmundur Jónasson, fv. innanríkisráðherra, í pistli á heimasíðu sinni þar sem hann gagnrýnir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu harðlega í Landsréttarmálinu og segir niðurstöðu hans ævintýralega. Bendir Ögmundur á að þjóðkjörið þing Íslands hafi staðfest skipan dómaranna lögum samkvæmt, æðra dómsvald síðan staðfest dóm viðkomandi Landsréttardómara í máli hins meinta brotaþola og að engar efasemdir hefðu komið fram um réttmæta málsmeðferð.

„Með öðrum orðum, Mannréttindadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að þegar kurl eru komin til grafar hafi mannréttindi ekki verið brotin …. en samt! … samt hafi þau verið brotin því viðkomandi hafi ekki fengið aðgang að rétt skipuðum dómara,“ segir hann.

Ögmundur tekur skýrt fram, að það skipti máli hvernig staðið er að skipan dómara og í sumum málum, í sumum ríkjum, hafi vafasöm tengsl verið misnotuð af hálfu valdhafa.

„Í málinu sem fór til Strasbourgar er engu slíku til að dreifa. Því fer víðsfjarri. Engar efasemdir eru um að dómur hafi verið rangur, það er bara dómarinn sem er sagður vera rangur og það án sannfærandi rökstuðnings. Í kjölfarið leggst þingheimur á hliðina og álitsgjafar verða óðamála sem aldrei fyrr. Skyldu hinir málglöðustu og dómhörðustu þeirra á meðal hafa lesið dómsniðurstöðuna og ígrundað hana og þá ekki bara meirhlutaálitið heldur og ekki síður minnihlutaálitið?,“ segir Ögmundur ennfremur.

Hann minnir og á, að sami dómstóll hafi á síðasta ári skorið upp úr með að réttarhöldin yfir Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra Íslands, hefðu verið í góðu lagi og ekki pólitísk, „því atkvæðagreiðslan á Alþingi um að skjóta máli hans fyrir Landsdóm hefði ekki verið pólitísk! Auðvitað veit hvert mannsbarn að málið var frá upphafi til enda rammpólitískt!“