Slagurinn um þriðja orkupakkann hefst á þingi í dag

Þingsályktunartillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og lagafrumvörp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins hafa verið lögð fyrir Alþingi og munu umræður hefjast á þingfundi sem hefst kl. 15.

Utanríkisráðherra mun fyrst mæla fyrir þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn, en ríkisstjórnin samþykkti hana fyrir sitt leyti á fundi þann 22. mars sl.

Með þingsályktunartillögunni heimilar Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku svonefnds þriðja orkupakkans í EES-samninginn.

Tillagan inniheldur fyrirvara um að áður en grunnvirki verði reist sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins verði lagagrundvöllur gerðanna endurskoðaður og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.

Hér má nálgast spurningar og svör um þriðja orkupakkann á vef Stjórnarráðsins.