Slökkt á öndunarvélinni. Fjármálakerfið hefur skellt í lás

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Ísland glímir við efnahagslega niðursveiflu. Um þetta eru greinendur sammála. Þeir sem reka ferðaþjónustufyrirtæki þurfa ekki greinendur til að segja sér það. Á sama tíma og launakostnaður, aðföng og ýmis rekstrarkostnaður hefur hækkað hafa tekjur lækkað. Gengi krónunnar er sterkara en þægilegt getur talist fyrir útflutningsgreinar með tilheyrandi minni eftirspurn.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann kallar eftir aðgerðum til að koma súrefni til fyrirtækjanna í landinu, eigi ekki illa að fara.

„Um 85% ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi eru smáfyrirtæki með 10 eða færri starfsmenn. Slík fyrirtæki liggja ekki á digrum sjóðum, þau þurfa þvert á móti að horfa í hverja krónu um hver mánaðamót. Og það er ekki einskorðað við ferðaþjónustufyrirtæki.

Í um 18 mánuði hefur umræðan snúist um að ferðaþjónustan sé í hagræðingarferli. Það þýðir á mannamáli að fyrirtækin þurfa að mæta auknum kostnaði með því að endurskipuleggja reksturinn og segja upp fólki. Smæð ferðaþjónustufyrirtækja gerir það að verkum að ekki er um að ræða fjöldauppsagnir sem birtast í fjölmiðlum, en þegar nokkur hundruð fyrirtæki þurfa að segja upp 1-4 starfsmönnum safnast það hratt upp. Tölurnar tala sínu máli, atvinnulausum fjölgaði um 1.800 manns milli ára, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Hvort sem greinendur kjósa að kalla núverandi efnahagsástand niðursveiflu eða stöðnun er ljóst að það hægist á í hagkerfinu. Þótt ferðaþjónustuaðilar séu almennt bjartsýnir um framtíð atvinnugreinarinnar til lengri tíma litið, er klárt að atvinnulífið þarf súrefni til að komast í gegnum öldudalinn. En þrátt fyrir það virðist vera slökkt á öndunarvélinni. Fjármálakerfið hefur skellt í lás,“ segir Jóhannes og birtir töfluna hér að neðan, máli sínu til stuðnings.

„Það er ekki eðlilegt ástand að lítil fyrirtæki í leit að lánsfjármagni komi alls staðar að lokuðum dyrum og það er ekki lögmál að það sama gildi um ríkisrekna banka og einkarekna í því tilliti. Og það er ekki eðlilegt að einstrengingslegri reglur hér á landi en í samanburðarlöndum um eiginfjárhlutfall fjármálastofnana geri það að verkum að vaxtaálag á lán til fyrirtækja hækki á sama tíma og stýrivextir Seðlabanka lækka. Með öðrum orðum: Það er hvorki eðlilegt né ásættanlegt að atvinnulífið beri kostnaðinn af því að efnahagsleg stýritæki Seðlabankans séu vængstýfð af opinberum fjármálareglum. Það er fáránlegt heimatilbúið ástand.

Í dag er staðan sú að útlánavöxtur bankanna þriggja til fyrirtækja nálgast nú núllið og illgerlegt er að nálgast fjármagn til framkvæmda, uppbyggingar eða fleytingar yfir þrengingatímabil í rekstrinum. Slík staða ýtir undir og leiðir til lengri stöðnunar. Um tveir þriðju allra íslenskra fyrirtækja eru lítil og meðalstór og verða því sérstaklega illa fyrir barðinu á þessari þróun. Atvinnulífið allt er undir, ekki bara ferðaþjónustan.

Atvinnugrein sem byggir á smáfyrirtækjum og árstíðasveiflu mun alltaf vera háð aðgangi að lánsfjármagni til að jafna sveiflurnar, sama hversu stöndug greinin er í heildina. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu um allt land sýnir svart á hvítu að það er samfélagslega hagkvæmt að styðja vel við þessa nýju grundvallaratvinnugrein. Það er einfaldlega góður bisness fyrir okkur öll.

Það er hvorki eðlilegt né ásættanlegt að atvinnulífið beri kostnaðinn af því að efnahagsleg stýritæki Seðlabankans séu vængstýfð af opinberum fjármálareglum.

En hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi þurfa þær stofnanir sem stýra peningamálum í landinu að lagfæra regluverkið í þá átt að efnahagsleg stýritæki virki. Nú þegar fjármálaeftirlit og Seðlabanki eru komin undir sama húsþak hlýtur það að vera augljóst viðfangsefni innanhússfunda.

Í öðru lagi verður eigandi meirihluta bankakerfisins, ríkið, að gera upp við sig hvernig það vill forgangsraða. Ríkið getur haldið áfram að innheimta arð úr bönkunum sem verður þá á áframhaldandi kostnað atvinnulífsins. Hins vegar getur ríkið ákveðið að slaka á arðgreiðslukröfunni um tíma og beint fjármagni ríkisbankanna í auknum mæli í útlán til fyrirtækja.

Það kemur því miður ekki á óvart að eigendur eins af stóru viðskiptabönkunum þremur forgangsraði arðgreiðslum umfram útlán til fyrirtækja. En það er sorglegt ef ríkið hagar sér eins án tillits til afleiðinganna.

Ef þeir sem stýra efnahagsmálum í landinu vilja í raun örva atvinnulíf, fækka atvinnulausum, fjölga tækifærum, stytta niðursveifluna og tryggja að atvinnufyrirtæki sem staðið hafa undir verðmætasköpun og fordæmalausum lífskjarabótum undanfarin tíu ár, haldi áfram starfsemi og eðlilegri uppbyggingu, eru ofangreind skref nokkuð skýr í rétta átt.

Hinn kosturinn er ekki í boði,“ segir Jóhannes Þór.