Smit komið upp á REY-cup og eitt lið sent heim: Þrjú innanlandssmit á sólarhring

Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi Almannavarna. / Júlíus Sigurjónsson LRH.

Smit hefur greinst hjá föður eins keppenda á knattspyrnumótinu REY-cup sem fer fram þessa dagana í Laugardal og hefur viðkomandi lið verið sent heim í sóttkví. Smitrakningarteymi Almannavarna vinnur nú að rakningu, samkvæmt upplýsingum frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni sem ræddi við Viljann nú í kvöld.

Að sögn mótshaldara er smitrakningarteymið að vinna hörðum höndum að því að greina alla mögulegar smitleiðir einstaklingsins sem greindist. „Það er talið að aðstæður séu mjög öruggar, en búið að gera viðeigandi ráðstafanir í samstarfi við almannavarni og smitrakningarteymið,“ segir talsmaður mótsins.

Þetta er þriðja innanlandssmitið sem greinist á skömmum tíma, en gær greindust tvö smit í tveimur aðgreindum málum. Báðir einstaklingar eru með einkenni COVID-19 veirunnar og eru komnir í einangrun.

Í öðru málinu hafa nokkrir verið settir í 14 daga sóttkví. Í hinu málinu hafa á þriðja tug verið settir í sóttkví. Þar hafði einstaklingur tekið þátt í frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði um síðustu helgi. Þeir sem voru útsettir fyrir smiti eru komnir í 14 daga sóttkví en smitrakningu er þó ekki lokið. Frjálsíþróttasamband Íslands er meðvitað um stöðuna og vinnur að því að gera viðeigandi ráðstafanir.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis biðja fólk sem sótti umrætt frjálsíþróttamót að gæta varúðar og huga að einstaklingsbundnum smitvörnum. Leiki minnsti vafi áhvort einkenni Covid-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstuheilsugæslustöð.

Í hinu tilfellinu er talið að ísraelskur ferðamaður hafi borið veiruna með sér til landsins og smitað íslenskan leiðsögumann. Sá ísraelski mældist ekki með smit við skimun í Leifsstöð við komuna til landsins.

Athygli vekur, að samkvæmt upplýsingum Viljans benda fyrstu niðurstöður úr raðgreiningu á veiru þeirra sem greindust í gær til þess að um nýtt afbrigði sé að ræða sem ekki hefur áður fundist hér á landi. Það þykir benda ótvírætt til þess að uppruninn sé erlendis, enda þótt ekkert liggi fyrir um smitleiðir í tilfelli frjálsíþróttamannsins eða föðurins sem greindist í dag.

Búast má við því að fjöldi fólks sé annað hvort kominn í sóttkví eða á leið í sóttkví vegna þessara mála.