Smitaðist við handtöku Rúmenanna: „Líf mitt hefur verið sett á ís“

„Eftir að hafa sinnt starfi mínu í tengslum við aðila sem komu hingað til landsins og virtu ekki reglur sóttvarnalæknis um sóttkví sit ég í einangrun eftir að hafa greinst jákvæð með COVID-19. Ég fór í sóttkví þar sem ég var í 4 daga þar til að niðurstöður bárust. Úr sóttkví fór ég beint í einangrun.
Líf mitt hefur verið sett á ís og ekki bara líf mitt heldur líf fjölskyldu minnar.“

Þetta skrifar lögreglukonan Íris Heimisdóttir á fésbókina, en hún smitaðist á dögunum þegar lögreglan handtók Rúmena á Selfossi fyrir innbrot og gripdeildir. Í ljós kom að þeir voru nýkomnir til landsins, höfðu ekki virt reglur um fjórtán daga sóttkví og reyndust auk þess vera smitaðir af veirunni.

Íris finnur fyrir umtalsverðum einkennum: Hálsbólgu, slími í hálsi sem nær niður í lungu, raddleysi ásamt beinverkjum.

„Þessum Þjóðhátíðardegi gleymi ég seint þar sem ég fagna honum ekki í faðmi fjölskyldu og vina heldur með sjálfri mér og kórónuveirunni. Henni var ekki boðið á þennan fögnuð en hún mætti samt. Eina vopnið sem ég ber í þessari baráttu er jákvæðnin. Nú reynir á,“ skrifaði hún á fésbókina í gær, þar sem Íris vekur jafnframt athygli á að lögreglumenn séu samningslausir um þessar mundir.