Smitnæmi sjúkdóma og hætta eykur svigrúm stjórnvalda

Páll Hreinsson lagaprófessor og dómari vann álitsgerð sem er grundvöllur nýja frumvarpsins.

Þeim mun smitnæmari og hættulegri sem smitsjúkdómur er, því víðara svigrúm hafa stjórnvöld til að bregðast við til verndar lífi og heilsu manna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í álitsgerð Dr. Páls Hreinssonar sem hann hefur tekið saman að beiðni stjórnvalda um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana í ljósi meginreglna stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæða.

Í álitsgerðinni kemur fram að margar sóttvarnaráðstafanir takmarki óhjákvæmilega mannréttindi sem varin eru af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Hið sama gildi um réttindi ein­staklinga og fyrirtækja samkvæmt EES-samningnum. Um þessi réttindi gildir jafnan að víkja megi frá þeim í þágu þeirra brýnu almannahagsmuna að verjast farsóttum til verndar lífi manna og heilsu þeirra.

Þessir hagsmunir fái mikið vægi þegar verið er að bregðast við farsótt sem geisar þar sem að lífi og heilsu manna steðjar bein og fyrirsjáanleg ógn. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að stjórnvöld hafa ekki aðeins heimild til að grípa til ráðstafana við slíkar aðstæður. Á þeim hvílir einnig frumkvæðisskylda að stjórnlögum til að bregðast við farsóttum með virkum úrræðum til verndar lífi og heilsu manna.

Þannig verði að telja að stjórnvöld hafi töluvert svigrúm til þess að meta hvernig best sé að mæta slíkum faraldri án þess að lögð sé sú skylda á stjórnvöld að byrja fyrst á vægari úrræðum þegar ekki verður séð fyrir hvað muni helst koma að notum við að ná því markmiði sem að er stefnt. Væri það gert afbrigðalaust væru mannslíf og heilsa almennings sett í hættu.

Hversu víð vikmörkin eru, sem stjórnvöldum eru játuð við þessar aðstæður, ræðst m.a. af því hvaða tíma stjórnvöld hafa til að afla upplýsinga um aðstæður og væntanleg áhrif þeirra aðgerða sem ætlunin er að ráðast í, bæði hvað varðar virknina við að berjast við farsóttina og einnig það tjón sem þær kunna að valda.

Hafa verði í huga að COVID-19 er nýr smitsjúkdómur sem hefur ekki verið rannsakaður nema í innan við eitt ár og því sé þekking á honum af mjög skornum skammti. Þannig sé nokkur óvissa um dánartíðni af völdum hans og um það hvaða sjúkdómar geta fylgt í kjölfar hans svo og það varanlega líkamstjón sem sumir sjúklingar geta hlotið af smitsjúkdómnum. Síðast en ekki síst er oft mikil óvissa um það hver virkni einstakra sóttvarnaúrræða verður þegar ákvörðun er tekin um að beita þeim.

Eftir því sem lengra líður á baráttu við farsótt verður að ætla að kröfur aukist um að stjórnvöld rannsaki betur og afli upplýsinga um virkni þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til í því skyni að hemja farsótt og afli einnig upplýsinga um það tjón sem slíkar aðgerðir hafa valdið. Í ljósi slíkra upplýsinga eiga ráðstafanir að geta orðið markvissari og betur sniðnar að aðstæðum þar sem tilvik eru flokkuð nánar en áður var gert.

Álitsgerðin mun nú fara til umfjöllunar hjá starfshópi sem heilbrigðisráðherra hefur skipað til að endurskoða sóttvarnalög. Hann mun jafnframt meta hvort þörf sé á að hraða þeirri vinnu að einhverju marki í ljósi ábendingar Páls Hreinssonar um að sum atriði séu meira aðkallandi en önnur.