Smitum fjölgar hratt í Evrópu — Samstaða brestur

Greindum smitum í stærstu löndum Evrópu hefur fjölgað mjög hratt undanfarna daga og miðað við þær tölur sem borist hafa í dag virðist hröðunin enn aukast.

Þróunin á Spáni er verri en hún var á Ítalíu fyrir fáeinum dögum en hvergi fjölgar smitum eins hratt. Á sama tíma hefur dánartíðni aukist hraðar en á Ítalíu. Smit og dauðsföll á Spáni eru nú orðin umtalsvert fleiri en þau voru á Ítalíu þegar það land var sett í sóttkví í heild sinni.

Á sama tíma berast enn fréttir af því að heilbrigðiskerfið á Norður Ítalíu sé aðframkomið. Ítalir hafa leitað til nágrannaríkjanna um aðstoð varðandi tækjabúnað og lyf. Tímaritið Foreign Policy greinir hins vegar frá því að slíkum beiðnum hafi verið hafnað.

Fjölgun skráðra smita eykst reyndar hraðar en hún gerði á Ítalíu víðar en á Spáni. Meðal þeirra landa sem standa frammi fyrir því eru Frakkland og Þýskaland en löndin hafa nokkurn vegin fylgst að í fjölgun smita. Sérstaka athygli vekur þó að fjöldi dánartilfella hefur haldist u.þ.b. 10 sinnum hærri í Frakklandi en í Þýskalandi.

Ljóst er að áhrif þeirra ráðstafana sem Evrópuríki hafa gripið til undanfarna daga muni ekki birtast fyrr en að einhverjum tíma liðnum.

Munurinn á hraða útbreiðslunnar í Evrópu annars vegar og mörgum ríkjum Austur Evrópu vekur hins vegar aukna athygli. Spurningar vakna um hvort Evrópulöndin, sem virðast fylgja sömu formúlu í viðbrögðum sínum, muni ná að hemja útbreiðsluna að því marki að heilbrigðiskerfið ráði við það eða hvort taka ætti aðferðir Asíuríkjanna til fyrirmyndar.