Sniðganga Katrínar næg ástæða til stjórnarslita

Sú ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að taka ekki á móti varaforseta Bandaríkjanna þegar hann kemur hingað til lands í næstu viku en fara heldur á norræna verkalýðsráðstefnu er forkastanleg og næg ástæða til stjórnarslita.

Þetta segir Júlíus Hafstein, fv. sendiherra, í samtali við Viljann.

Hann er ómyrkur í máli þegar kemur að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokks og Vinstri grænna:

„Mér hefur aldrei hugnast þessi ríkisstjórn og það er til skammar fyrir land og þjóð að Steingrímur J. Sigfússon hafi fengið stól forseta Alþingis. Sjálfstæðismenn sýndu kjarkleysi þar,“ segir hann.

Júlíus segir það skyldu forsætisráðherra að vera á staðnum þegar varaforseti Bandaríkjanna sækir landið heim.

„Samstarf og viðskipti við Bandaríkin hafa verið og eru meiri en við nokkuð annað ríki. Og ekki kæmi það mér á óvart að þessi samskipti öll eigi eftir að aukast enn meir á komandi árum. Bandaríkin eru leiðandi þjóð í NATO samstarfinu þar sem Ísland situr einnig. Sú ákvörðun að vera eitt af NATO löndunum er besta og öflugasta ákvörðun sem Ísland hefur tekið í utanríkismálum,“ bætir sendiherrann fyrrverandi við.