Snjóframleiðsla og nýjar skíðalyftur í Bláfjöllum og Skálafelli fá grænt ljós

„Uppbygging skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli ætti nú að vera komin á beinu brautina og útboð á fyrstu framkvæmdum á að geta farið fljótlega af stað. Stór og mikilvæg skref í átt að framkvæmdum við snjóframleiðslu, endurnýjun á lyftum og stóreflingu aðstöðu til skíðaiðkunar hafa verið stigin undanfarna daga og vikur,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hann segir í færslu á fésbókinni í morgun, að snjóframleiðslunni sé ætlað að lengja skíðatímabilið og bæta rekstrarforsendur svæðanna en í áformunum felist einnig miklar fjárfestingar í nýjum og endurnýjaðum lyftum ásamt betrumbótum á skíðasvæðunum.

„Fyrir hátíðar lá fyrir ítarlega útfærð og staðfest aðgerðar og framkvæmdaáætlun vegna mótvægisaðgerða til að tryggja vatnsvernd á svæðinu. Kærur vegna umhverfismála hafa því verið dregnar til baka. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur látið uppfæra kostnaðarmat og framkvæmdaáætlanir og fyrir liggja drög að viðaukasamningi á þeim grundvelli sem fer til samþykktar sveitarfélaganna. Á mánudaginn sl. samþykkti skipulagsnefnd Kópavogs framkvæmdaleyfi vegna málsins sem nú fer til staðfestingar bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Ný framkvæmdaáætlun felur í sér að ráðist verður í snjóframleiðslu í Bláfjöllun á þessu ári og í Skálafelli árið 2022. Á þessi ári verður einnig fjárfest í nýrri lyftu í Bláfjöllum (Gosa) og 2022 nýrri Drottningu. Í báðum tilvikum verður um breytta legu þeiurra að ræða (sjá mynd). Þá bætist við stólalyfta í Eldborgargil við lok framkvæmdatímans ásamt nýrri toglyftu úr Kerlingardal. Stólalyfta í Skálafelli verður endurnýjuð 2021. Alls hljóðar fjárfestinga- og framkvæmdaáætlunin upp á rúma fjóra milljarða sem dreifast á árin 2020-2025. Skíðaíþróttin er vinsæl almenningsíþrótt fyrir alla aldurshópa þótt raunar viðri ekki vel til hennar akkúrat í dag. Ég hlakka mjög til að sjá þetta verða að veruleika,“ bætir borgarstjórinn við.