Hafin er söfnun undirskrifta meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna gegn þriðja orkupakkanum.
Samkvæmt orðsendingu sem Viljanum hefur borist, var í gær sett á laggirnar vefsíða vegna undirskriftasöfnunarinnar. Þar segir að samkvæmt 6. grein skipulagsreglna flokksins sé Miðstjórn flokksins skylt að láta fara fram almenna kosningu meðal flokksmanna um tiltekin málefni berist um það skrifleg ósk frá a.m.k. 5000 flokksbundnum félögum en þar af skulu ekki færri en 300 flokksmenn koma úr hverju kjördæmi landsins.
„Innleiðing þriðja orkupakkans sem fyrirhuguð er af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þegar leitt til harðra deilna innan Sjálfstæðisflokksins, enda ríkir um málið mikil og djúpstæð óeining í okkar röðum. Hér er ætlunin að safna tilskildum fjölda undirskrifta og knýja með því fram atkvæðagreiðslu um málið,“ segir á vefsíðunni xD5000.is, en það er Jón Kári Jónsson, formaður félags Sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, sem ritar undir orðsendinguna.