Sögðust ætla að auka þjónustu Strætó, en skera þess í stað niður

„Mér hefur skilist að markmiðið væri að auka þjónustuna í almenningsflutningum og breyta ferðavenjum fólks á höfuðborgarsvæðinu. Hef ég kannski misst af einhverju?“

Að þessu spyr Hilmar Þór Björnsson arkitekt á fésbókinni í dag í tilefni fréttar á mbl.is um hagræðingarkröfu sem gerð hefur verið á Strætó.

Í fundargerð stjórnar Strætó frá því skömmu fyrir jól, segir að eigendur félagsins, það er sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, geri kröfu um 95 mkr hagræðingu á árinu 2019. Þar kemur fram að stjórnin hafi samþykkt að ráðast í fjórar aðgerðir til að draga úr kostnaði og mæta kröfunni, en þær felast allar í skertri þjónustu við farþega.

Vekur þetta sérstaka athygli, þar sem yfirlýst stefna stærsta eigenda fyrirtækisins, Reykjavíkurborgar, hefur verið að kynna Strætó sem vistvænan samgöngumáta og beinan valkost við einkabílinn. Hafa margvíslegar leiðir verið kynntar í því skyni að auka þjónustu við farþega svo þeir noti þennan samgöngumáta frekar.

„Það kom krafa frá stjórn um 95 millj­óna króna hagræðingu og sam­kvæmt gögn­un­um okk­ar telj­um við að þess­ar breyt­ing­ar skerði þjón­ust­una eins lítið og mögu­leiki var fyr­ir hendi,“ seg­ir Guðmund­ur Heiðar Helga­son, upp­lýs­inga­full­trúi Strætó, í samtali við mbl.is.

Meðal breytinga sem þegar eru komnar til framkvæmda er stytting leiðar nr. 14. Í næsta mánuði mun siðasta ferð verða farin klukkustund fyrr en nú er, næturleið nr. 111 hættir akstri sömuleiðis og breytingar verða gerðar á leiðum 101 og 106 sem leiða til skertrar þjónustu.

Nánar má lesa um hagræðingaraðgerðirnar hér í fundargerð stjórnar Strætó.