Hver sögulegi stóratburðurinn rekur nú annan á tímum Kórónaveirunnar og nú fyrir stundu tilkynnti danski forsætisráðherrann Metta Frederiksen, að landamærum landsins yrðu lokað í hádeginu á morgun.
Kórónaveirufaraldur er kominn upp í Danmörku eins og víðar í Evrópu og staðfestum smitum fjölgar ört. Óttast forystumenn landsins að neyðarástand muni skapast á sjúkrahúsum í landinu næstu daga.
Gildir lokunin til 13. apríl og tekur til samgangna í lofti, ferja og járnbrautalesta. Er fullt landamæraeftirlit í gildi á meðan og má búast við að vopnaðir hermenn gæti landamæranna, að sögn forsætisráðherrans.
Hún sagði að þetta væru sögulegir tímar og ástand sem enginn hefði áður reynt. Saman þyrfti danska þjóðin að komast í gegnum storminn, en til þess þyrfti að grípa til íþyngjandi úrræða sem valda munu mörgum miklum erfiðleikum.
Enginn mun fá inngöngu í landið án þess að eiga brýnt erindi, en Danir eða aðrir sem búsettir eru í landinu munu komast inn fyrir landamærin. Öðrum verður alfarið hafnað.
Ekki þarf að taka fram, að Danir eru aðilar að Evrópusambandinu og samningnum um frjálsa för, þannig að ráðstafanir þessar eru ekki aðeins sögulegar heldur án fordæma í seinni tíð.