Í dag var viðræðum Eflingar og samflotsfélaga við Samtök atvinnulífsins slitið hjá Ríkissáttasemjara. Þar með hafa félögin fengið heimild til að hefja verkfallsaðgerðir.
Forystumenn félaganna gengu út af samningafundi eftir aðeins um hálftíma viðræður og höfðu þá þegar tekið sér stutt hlé til að ráða ráðum sínum eftir að ljóst var að Samtök atvinnulífsins væru ekki með nýtt útspil í viðræðunum.
„Verkafólk á Íslandi hefur of lengi þurft að þola láglaunastefnu og stjórnlausan ójöfnuð. Verkafólk hefur skapað góðæri síðustu ára með vinnu sinni. Atvinnurekendur hafa þó neitað að ganga að sanngjörnum kröfum Eflingar og samflotsfélaga. Verkfall er þaulreynd og lögvarin aðferð stéttarfélaga til að jafna hlut vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Allar verkfallsaðgerðir þarf að samþykkja í kosningu meðal þeirra félagsmanna sem verkfall tekur til.
Viljinn er í Karphúsinu og mun birta frekari fréttir um málið síðar í dag, en óhætt er að tala um stórtíðindi og að söguleg staða sé komin upp.