Söguleg stjórnarmyndun í Svíþjóð

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía.

Sænski jafnaðarmaðurinn Stefan Löfven verður áfram forsætisráðherra Svíþjóðar í ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja. Þetta varð niðurstaða atkvæðagreiðslu í sænska þinginu föstudaginn 18. janúar. Til að Löfven héldi velli þurfti hann að tryggja að færri þingmenn en 175 af 349 á sænska þinginu greiddu atkvæði gegn sér.

Hann naut stuðnings eigin flokks og Græna flokksins (alls 115 þingmanna) flestir þingmanna Miðflokksins, Frjálslynda flokksins og Vinstri flokksins (alls 77 þingmenn) sátu hjá, einn miðflokksmaður greiddi atkvæði gegn stjórninni. Modetrataflokkurinn (mið-hægri), Kristilegir demókratar og Svíþjóðardemókratar greiddu atkvæði gegn stjórninni.

Löfven kynnir ráðherralista sinn mánudaginn 21. janúar. Með atkvæðagreiðslunni 18. janúar lauk 131 dags stjórnarkreppu í Svíþjóð. Þá greiddu þingmenn í þriðja sinn atkvæði um forsætisráðherraefni. Tilraunum til stjórnarmyndunar í Svíþjóð eru ekki sett nein tímamörk. Á hinn bóginn fá þingmenn aðeins fjögur tækifæri til að greiða atkvæði um forsætisráðherraefni. Njóti enginn stuðnings þingsins að þeim loknum er þing rofið og boðað til nýrra kosninga.

Á sænska þinginu nýtur fylking mið-vinstri manna stuðnings 144 þingmanna (Jafnaðarmannaflokkurinn, Græni flokkurinn og Vinstri flokkurinn.) Mið-hægri fylkingin á 143 þingmenn (Moderata, frjálslynda, miðflokksmenn og kristilega demókrata). Til hægri eru svo Svíþjóðardemókratar með 62 þingmenn.

Það varð sögulegt uppbrot milli fylkinganna til hægri og vinstri fyrir viku þegar jafnaðarmönnum og græningjum tókst að fá tvo flokka úr hægri fylkingunni, Miðflokkinn og Frjálslynda flokkinn, til að greiða ekki atkvæði gegn stjórninni enda hallaði hún sér aðeins til hægri í efnahagsmálum.

Löfven þurfti að leggja meira á sig til að fá þingmenn Vinstri flokksins til að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna um forsætisráðherrann. Þeim er nú haldið utan við framkvæmd stjórnarstefnunnar. Formaður flokksins segir að hann hafi þó valið að fara þessa leið til að koma í veg fyrir hægri stjórn.

Löfven lýsti stjórnarmyndun sinni sem „sögulegri“, flokkar yrðu að hafa þrek til að ganga til samstarfs í krafti málamiðlana í stað þess að sitja áhrifalausir hver í sínu horni.

Af vardberg.is, birt með leyfi.