Sögulegt samkomulag í Færeyjum um norrænt varnarsamstarf

Høgni Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Antti Häkkänen, varnarmálaráðherra Finnlands, og Mininnguaq Kleist, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis Grænlands.

„Fundurinn hér í Þórshöfn var um margt sögulegur. Við höfum markað nýja framtíðarstefnu fyrir norrænt varnarsamstarf við gjörbreyttar aðstæður í öryggismálum og nú með öll Norðurlöndin innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Samstarf ríkjanna hefur eflst mjög hratt á síðustu árum með virkri þátttöku Íslands. Gott og náið samstarf Norðurlandanna eykur öryggi íbúa þjóðanna og styrkir um leið framlag þeirra til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, en ný langtímastefna fyrir norrænt varnarsamstarf (NORDEFCO) til ársins 2030 var undirrituð á fundi varnarmálaráðherra Norðurlandanna sem lauk í Þórshöfn í dag.

Þá ræddu ráðherrarnir um mikilvægi áframhaldandi stuðnings til Úkraínu og þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Að þessu sinni áttu fulltrúar stjórnvalda í Færeyjum og Grænlandi einnig sæti á fundinum.

Á vef utanríkisráðuneytisins, kemur fram að stefnunni er ætlað að mæta nýjum öryggisáskorunum, efla sameiginlega varnargetu og öryggi ríkjanna sem og framlag þeirra innan Atlantshafsbandalagsins. Sem fyrr var rík samstaða á fundinum um mikilvægi þess að styðja áfram við varnarbaráttu Úkraínu, en ríkin hafa til þessa lagt fram um 13 milljarða evra í varnartengdan stuðning til handa Úkraínu.

Þróun öryggismála á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi hefur verið á oddinum í tíð formennsku Danmerkur í NORDEFCO og voru þau mál því ofarlega á baugi á fundi varnarmálaráðherranna. Svæðið hefur vaxandi öryggispólitískt vægi fyrir Evrópu og Norður-Ameríku og ráðherrarnir sammála um mikilvægi þess að viðhalda stöðuvitund, fælingu og vörnum á svæðinu.

Sjá nánar yfirlýsingu fundarins og stefnumið fyrir norrænt varnarsamstarf.