Sonur Gunnars Braga: Nú er mælirinn fullur. Hvenær er komið nóg?

Róbert Smári Gunnarsson.

„Nú er mælirinn fullur. Hvenær er komið nóg?“ spyr Róbert Smári Gunnarsson, sonur Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fv. utanríkisráðherra, í tilefni hádegisfrétta Bylgjunnar, þar sem fullyrt var að faðir hans hefði verið drukkinn og með frammíköll á leiksýningunni Elý á dögunum og því væri ekki rétt, sem hann sjálfur hefði sagt opinberlega, að hann hefði ekki smakkað áfengi eftir uppákomuna á Klausturbar í nóvember sl. DV sló svo fullyrðingum Bylgjunnar upp sem frétt í dag.

„Ég var á þessari sýningu með pabba og Sunnu þann 18. janúar. Pabbi bragðaði ekki áfengi fyrir sýningu, né á sýningu og ekki eftir hana,“ segir Róbert Smári í færslu á fésbókinni sem Viljinn fékk heimild til að vitna til.

„Sýningin var góð, við skemmtun okkur vel, hann greip ekki fram í og var bláedrú, allir voru til fyrirmyndar. Og öll vorum við sammála að um einhverja flottustu sýningu sem við höfum séð væri að ræða,“ segir hann.

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

Róbert kveðst gáttaður á slíkri fréttamennsku.

„Hversu lágt er hætt að leggjast? Hvenær er botninum náð? Hvað fær ,,blaðamann” til þess að halda þessu fram og búa svona til? Hvað ætla fjölmiðlar að leggja mikið á fjölskyldur stjórnmálamanna?!“

Hann kveðst skrifa þetta „með tárin í augunum, sár og reiður, að svona skuli nokkur skrifa án vísunar til sannleikans og að leggja þetta á okkur, okkur sem vitum að þetta er haugalygi. Andskotans endemis vitleysa,“ segir Róbert Smári Gunnarsson.

Uppfært kl. 18:05: Fréttastofa Bylgjunnar hefur dregið umrædda frétt til baka og beðið Gunnar Braga opinberlega afsökunar.