Sorglegra að horfa upp á þá einangrunarhyggju sem einkennir ákvörðun Breta

Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar.

„Það er leitt að horfa á eftir Bretum út úr Evrópusambandinu. Brotthvarf þeirra mun leiða til lakari aðgangs Breta að innri markaði ESB og að sama skapi lakari aðgangi okkar og annarra aðildarríkja innri markaðarins að Bretlandsmarkaði,“ segir Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður og varaformaður Viðreisnar.

Þorsteinn, sem er fv. félagsmálaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það sé þó heldur fátækleg sýn að horfa einungis til þröngra efnahagslegra hagsmuna í þessu sambandi.

„Það er nefnilega enn sorglegra að horfa upp á þá einangrunarhyggju sem einkennir ákvörðun Breta. Þegar öllu er á botninn hvolft eru Bretar að snúa baki þeirri hugsjón sem liggur að baki Evrópusamvinnunni. Hugsjónina um frið á okkar tímum, um frelsi, mannréttindi, mannúð, jöfnuð, lýðræði og samvinnu þjóða.

Samvinnu þar sem hagsmunir einstakra ríkja eru ekki ráðandi, heldur sú fallega hugsjón að saman getum við skapað betri heim,“ bætir hann við.