Sorpa þarf neyðarlán: Gjaldfærnin tryggð, því sveitarfélögin borga

Birkir Jón Jónsson fv. alþingismaður er stjórnarformaður Sorpu.

Miðað er við að endurskoðun á rekstri og fjármögnun SORPU bs. sem nú stendur yfir ljúki á næstu mánuðum. SORPA hefur verið í miklum fjárfestingum undanfarið og fyrir liggur að ganga þarf frá heildarfjármögnun fyrirtækisins til að standa undir þeim. Helgi Þór Ingason verkfræðingur sem ráðinn hefur verið tímabundið í starf framkvæmdastjóra SORPU mun leiða þá vinnu.

Þetta kemur í yfirlýsingu frá SORPU bs. sem er byggðasamlag. Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ sagði á bæjarstjórnarfundi í gær, að 600 mkr neyðarlán þurfi til að félagið lendi ekki í greiðsluþroti í næsta mánuði.

Byggðasamfélagsformið felur í sér að sveitarfélögin sex sem að henni standa bera ábyrgð á rekstrinum. Gjaldfærni fyrirtækisins er því alltaf tryggð þó að til þess geti komið að sveitarfélögin sem að því standa þurfi að leggja fram frekari fjármuni til rekstursins.

Birkir Jón Jónsson, fv. alþingismaður og nú bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, er formaður stjórnar SORPU, en eins og kunnugt er var framkvæmdastjóra fyrirtækisins sagt upp á dögunum vegna trúnaðarbrests.

Aðrir í stjórn fyrirtækisins eru:

Líf Magneudóttir fyrir Reykjavík – varaformaður
Ágúst Bjarni Garðarson fyrir Hafnarfjörð
Jóna Sæmundsdóttir fyrir Garðabæ
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir fyrir Mosfellsbæ
Bjarni Torfi Álfþórsson fyrir Seltjarnarnes 

„Að gefnu tilefni, vegna fréttaflutnings af fyrirhugaðri lántöku fyrirtækisins, skal áréttað að sú aðgerð er liður í að skapa nauðsynlegt ráðrúm til að fara yfir heildarfjármögnun framkvæmda og rekstrar SORPU bs. til lengri tíma. Um er að  ræða eðlilega fjármögnunaraðgerð á byggingartíma mannvirkja,“ segir á vef fyrirtækisins.