„Sósíalismi leiðir til stöðnunar, spillingar og þaðan af verra“

Forstjórinn hefur áhyggjur af vaxandi ójöfnuði, en telur sósíalisma ekki svarið við vandanum.

„Sósíalismi leiðir til stöðnunar, spillingar og þaðan af verra“, segir Jamie Dimon, forstjóri JP Morgan, í árlegu bréfi til hluthafa bankans, þar sem hann segir sósíalisma eiga eftir að verða „stórslys fyrir landið okkar [Bandaríkin].“

Sósíaldemókratismi nýtur æ meiri stuðnings á meðal bandarískra stjórnmálamanna, þ. á m. hjá þingmanni demókrata í New York, Alexandria Ocasio-Cortez og stuðningsmönnum demókratans Bernie Sanders, gömlum sósíalista sem hyggst bjóða sig fram aftur í næstu forsetakosningum.

Öldungadeildarþingmennirnir og Demókratarnir Sanders og Elizabeth Warren, hafa óskað eftir því að stórfyrirtæki verði brotin upp og vilja herða enn á reglum, sérstaklega varðandi bankaviðskipti, að sögn breska dagblaðsins The Guardian.

„Þegar ríkisvaldið stjórnar fyrirtækjum, lánardrottnum o.s.fr.v., þá leiðir það til óskilvirkni markaða, pilsfaldakapítalisma og spillingar,“ skrifaði Dimon m.a. í bréfi sínu. „Sósíalismi skapar óhjákvæmilega stöðnun, spillingu og það sem er oft verra – valdníðslu embættismanna sem truflar bæði hagkerfið og líf einstaklinga – sem þeir beita oft til að halda völdum.“

Sósíalisminn er talinn verða eitt af aðalmálunum fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Donald Trump er þegar byrjaður að heyja sína kosningabaráttu með því að taka afdráttarlaust stöðu gegn sósíalisma og hefur þegar lýst því yfir að „Bandaríkin verði aldrei sósíalistaríki.“

Ójöfnuður að skipta þjóðinni upp í fylkingar

Dimon hefur áður varað við því að tekjuójöfnuður sé að skipta Bandaríkjamönnum í fylkingar og hefur sagt það algerlega ljóst að stór hluti fólks hafi verið skilinn eftir.

„Fjörtíu prósent Bandaríkjamanna eru með minna en 15 dollara á tímann. Fjörtíu prósent geta ekki borgað reikning upp á 400 dollara, hvort sem það er vegna heilsugæslu eða til að gera við bílinn sinn. Fimmtán prósent eru á lágmarkslaunum og 70 þúsund deyja árlega vegna misnotkunar á ópíóðalyfjum.“

Hann viðurkennir að kapítalismi hafi sína galla, en sé enn sem áður samt besta hagfræðilega kerfi sem heimurinn hafi og jafnframt að nauðsynlegt sé að hafa velferðarkerfi samhliða sem öryggisnet. Öll ríki ættu að einbeita sér að betrumbótum á reglum hvað varðar félags- og velferðarkerfi.