Spánn: Engin ferðamennska, stórar skemmtanir eða menningarviðburðir út árið

Spænsk stjórnvöld biðja landsmenn að gleyma áformum um menningarviðburði, almennt skemmtanahald eða að ferðamönnum verði hleypt aftur inn í landið á þessu ári.

Vonir standa til að spænskt þjóðlíf geti aftur orðið með eðlilegum hætti eftir áramót.

Frá þessu greinir spænska blaðið Marca. Unnið er að því í tveimur skrefum að aflétta takmörkunum og útgöngubanni sem sett var á vegna kórónuveirunar. Fyrra skrefið verður tekið snemmsumars og tekur að innlendu atvinnulífi, en stærri skref verða ekki tekin fyrr en í árslok, að sögn atvinnumálaráðherrans þar í landi, Yolanda Diaz.

Ráðherrann viðurkennir að stórir geirar atvinnulífsins muni lenda í verulegum erfiðleikum, enda reiða Spánverjar sig mjög á komu ferðamanna.

Endanleg ákvörðun verður tekin í þessum efnum af spænska heilbrigðisráðherranum líkt og hér á landi, en þetta er planið sem unnið er eftir og eru Spánverjar því þegar farnir að horfa vonaraugum til ársins 2021 eftir betri tíð og bjartari.