Sparast tæplega 200 milljónir á ári við að loka Kelduskóla Korpu

Korpuskóli

Þann 24.september birti Viljinn frétt um mögulega stokkun á skólastarfi í Grafarvogi. Sú umræða kom upp eftir að Innri Endurskoðun Reykjavíkurborgar gaf út skýrslu í byrjun septembermánaðar.

Má sjá greinina hér. Og eru lesendur hvattir til þess að lesa hana áður en lesið er yfir svör formanns skóla- og frístundaráðs.

Formaður skóla- og frístundaráðs er Skúli Þór Helgason.

Skúli Þór Helgason

Svarar hann hér spurningum sem komu upp í greininni :

Getur þú útskýrt í hverju sparnaðurinn felst með því að loka Korpuskólanum ? 

„Já það kemur fram í skýrslu starfshópsins að sparnaður á ári af því að loka Kelduskóla Korpu er tæplega 200 milljónir.  Stærstu liðirnir þar eru húsnæðiskostnaður, launakostnaður, rekstur frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar.“

Yrði farið í einhverjar sérstakar aðgerðir til þess að koma til móts við fólk sem myndi missa vinnu ? 

„Já mannauðsdeild sviðsins myndi aðstoða viðkomandi að fá vinnu en reynsla okkar er sú að starfsmenn í skóla- og frístundastarfi þykja eftirsóttur starfskraftur og atvinnumöguleikar því góðir.  Líkur á því að viðkomandi starfsfólk fengi vinnu í öðrum skólum borgarinnar eru því yfirgnæfandi.“

Nú hafa íbúar Grafarvogs kvartað undan slæmum samgöngum, verður eitthvað gert í þeim málum þegar fleira fólk þyrfti að keyra með börnin sín í hinn sameinaða skóla ? 

„Já það er hluti af báðum tillögum að gripið verður til samgöngubóta og mótvægisaðgerða til að tryggja góðar og öruggar samgöngur barna í skóla. Ef tillaga um lokun Kelduskóla-Korpu verður fyrir valinu mun viðkomandi börnum á yngsta stigi (1. – 4. bekkur) verða tryggður skólaakstur úr Staðarhverfi í Engjaskóla og sömuleiðis þeim börnum sem þurfa að ganga lengra en 1,5 km leið í skóla- og frístundastarf. Við leggjum mikla áherslu á að ráðist verði í samgöngubætur til að tryggja öruggar göngu- og hjólreiðaleiðir og höfum jafnframt óskað eftir því að Strætó komi til móts við þarfir barna sem  myndu kjósa að nýta þann samgöngumáta.  Þegar hefur verið óskað eftir þessum samgöngubótum í viðræðum við fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs og forráðamenn Strætó og eru þau mál til meðferðar hjá þeim aðilum. Báðar tillögurnar gera ráð fyrir úrbótum á göngu- og hjólaleiðum í hverfinu.


Hér er kaflinn úr skýrslunni þar sem fjallað er um samgöngubætur sem skilyrði fyrir báðum tillögum starfshópsins:

Í tillögum 1 og 2 eru grundvallarforsendur fyrir breytingum eftirfarandi:

Gönguljós sett upp og þrenging götu á völdum stað Mosaveg.

Göngu- og hjólaleiðir verði einnig bættar til að gera skóla-, frístunda- og íþróttastarf aðgengilegra fyrir íbúa í öllum norðanverðum Grafarvogi.

Skoða mætti hvernig hægt er að bæta strætisvagnasamgöngur, t.d. með tíðari ferðum á milli hverfa, tímatöflu sem tekur tillit til þarfa nemenda á grunnskólaaldri og viðbótar stoppi á völdum stað nálægt mótum Mosavegar og Víkurvegar. 

Í tillögu 1 er gerð viðbótar krafa í samgöngubótum þar sem fleiri börn á yngstu stigum grunnskóla verða á ferðinni á milli Staðahverfis og hverfi Engja og Víkur:

• Undirgöng verði sett á völdum stað við Víkurveg til að auka umferðaröryggi yngstu barnanna. 

Í tillögu tvö, þar sem unglingar í hverfinu eru á ferðinni á milli Staðahverfis og hverfi Engja og Víkur, er viðbótar krafa í samgöngubótum eftirfarandi: ï Gönguljós sett upp og þrenging götu á völdum stað við Víkurveg og Mosaveg.“

Bætir Skúli svo við :

„Helstu rök fyrir tillögu starfshópsins um lokun Kelduskóla Korpu eru þau að skólinn sé orðinn það fámennur að það komi niður á bæði námslegri og félagslegri stöðu nemenda, m.ö.o. í skóla sem telur innan við 60 börn er mun erfiðara að tryggja þá fjölbreytni varðandi námsframboð og vinatengsl/félagaval sem við teljum afar mikilvægt að bjóða börnum.  Það getur skipt verulegu máli að börn hafi úr mörgum kostum að velja þegar kemur að því að velja sér vini og félaga og þegar fjöldi í árgangi er kominn niður fyrir einn tug eins og gerst hefur í þessum skóla þá þrengist mjög um þá kosti.  Fjöldi í árgangi hefur farið alveg niður í 5 börn.  Nemendum hefur fækkað jafnt og þétt á hverju ári undanfarin 8 ár – úr 141 barni árið 2012 í 59 börn í vetur.  Engin dæmi eru um svo samfellda fækkun annars staðar í borginni og næst minnsti grunnskólinn í borginni er tvöfalt fjölmennari.  Þá er rétt að hafa í huga að meðalstærð grunnskóla á landinu er 436 börn í stærri sveitarfélögum landsins eins og kemur fram í skýrslu starfshópsins og flestir grunnskólar í nágrannasveitarfélögunum eru af þeirri stærðargráðu.“

Hvaða hugmyndir eru varðandi nýtingu á húsnæðinu í Korpu. Á að selja það, kemur sparnaðurinn þaðan? 

Þar sem engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi framtíðarskipan skólahalds í hverfinu hefur eðlilega engin ákvörðun verið tekin um aðra nýtingu á húsnæði Korpu.  Starfshópurinn veltir upp nokkrum möguleikum í sinni skýrslu, þ.m.t. samrekinn leik og grunnskóli og útibú úr Brúárskóla en það er seinni tíma umræða. Sala á húsinu er ekki hluti af þeim sparnaði sem áætlað er að myndi fylgja lokun Korpu.“

Hafði Skúli svo nokkur orð til þess að bregðast við tveimur atriðum í fréttinni :

„Það er ekki rétt að Hjallastefnan hafi óskað eftir viðræðum við mig um rekstur Korpu. Það er heldur ekki rétt hjá formanni foreldrafélagsins að það módel sem er í umræðunni varðandi nýja skóla í Vogabyggð og Skerjafirði myndi leysa málið í Korpu.  Ástæðan er sú að þeir skólar eru hugsaðir fyrir 1-9 ára börn í samreknum leik og grunnskóla og það eru einungis 86 börn á þeim aldri með lögheimili í Staðarhverfi m.v. nýjustu tölur frá Þjóðskrá en skólinn var byggður fyrir tvöfalt fleiri nemendur.„