Spennið beltin: Tæp 80% félagsmanna Eflingar hlynntir verkfalli

Í nýrri könnun sem Gallup framkvæmdi meðal félagsmanna Eflingar-stéttarfélags kemur í ljós afdráttarlaus stuðningur við kröfugerð félagsins í kjarasamningum. Tæplega 80% félagsmanna telja hana sanngjarna og sama hlutfall segist hlynnt því að fara verkfall til að knýja á um launakröfur verkalýðsfélaganna.

Þetta kemur fram á vefsíðu Eflingar í dag.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Myndin er af vef Sósíalistaflokksins.

Erlendur hluti vinnuaflsins fylkir sér ekki síst bak við launakröfurnar en samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefur stuðningur við kröfur og verkfallsaðgerðir auk væntinga um launahækkanir í kjölfar kjarasamninga tilhneigingu til að vera meiri meðal félaga af erlendum uppruna.

Þá leiðir könnunin í ljós mikla aukningu á fjárhagsáhyggjum meðal félagsmanna frá launakönnun sem framkvæmd var í ágúst síðastliðnum. En þær aukast um 16% á milli mælinga úr 47% sem hafa miklar eða mjög miklar áhyggjur í kjarakönnun í ágúst 2018 í 63% í janúar 2019. Þetta eru mestu fjárhagsáhyggjur sem hafa mælst í könnunum Eflingar frá hruni.

Spurningarnar voru lagðar fyrir fullvinnandi félagsmenn Eflingar með netkönnun á tímabilinu 19.-26. janúar. Haft var samband við 4758 félagsmenn og þar af svöruðu 1350. Niðurstöður voru vigtaðar út frá atvinnugrein og uppruna.