Spilling í stjórnmálum og fjármálum helsta áhyggjuefni Íslendinga

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar 2019 og birt hefur verið á vef fyrirtækisins.

Svarendur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Líkt og í fyrra voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (44%), fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (35%), heilbrigðisþjónusta (35%) og húsnæðismál (30%) sem reyndust helstu áhyggjuvaldar þjóðarinnar, þó að röðun þeirra hafi tekið breytingum á milli ára.

Af þeim áhyggjuefnum sem spurt var um hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum aukist mest frá könnun ársins 2018. Voru loftslagsbreytingar nefndar af 20% svarenda í nýafstaðinni könnun en það er aukning um sem nemur 11 prósentustigum.

Þá hafa áhyggjur af sköttum (7 prósentustiga aukning), verðbólgu (6 prósentustiga aukning), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (5 prósentustiga aukning) og efnahagslegu hruni/samdrætti (4 prósentustiga aukning) einnig aukist á milli ára.

Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum málefnum eða um því sem nemur 13 prósentustigum frá könnun síðasta árs, úr 17% í 5%. Þá hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (9 prósentustig), glæpum og ofbeldi (6 prósentustig) og húsnæðismálum (4 prósentustig) einnig minnkað yfir sama tímabil.