Sprenging varð síðasta sólarhringinn í fjölda þeirra sem hafa smitast eða látist af völdum Kórónaveirunnar. Er þetta langversti sólarhringurinn í þessum efnum, frá því veiran greindist um áramótin í Kína.
Á aðeins 24 klukkustundum greindust 14.840 ný tilfelli af veirunni og 242 dauðsföll í Hubei héraði í Kína. Væntingar um að veiran sé þannig mögulega að ná hámarki eða jafnvel í rénun, eru því að engu orðnar.
Það þykir ekki traustvekjandi fyrir kínversk heilbrigðisyfirvöld að tölfræðin sýni slíka sprengingu, því þau hafa legið undir grun um að segja ekki alla söguna um alvarleika veirunnar. Nú segjast yfirvöld í Hubei hafa tekið í notkun ný greiningartól með þessum árangri og bendir það til þess að miklu fleiri séu smitaðir, en hingað til hefur verið látið í veðri vaka.
Tveir háttsettir aðilar í stjórnkerfi héraðsins þurftu að taka pokann sinn, fljótlega eftir að nýju tölurnar voru gefnar út.
Opinberar tölur segja nú að 1.350 manns séu látin af völdum veirunnar og yfir 60 þúsund smitaðir. Eins og Viljinn hefur bent á, telja alþjóðlegir sérfræðingar í smitsjúkdómum að þær tölur séu fjarri öllu lagi — staðan sé miklu verri.
Nýja aðferðin við greiningar telur einnig með þá sem hafa smitast en finna fyrir litlum sem engum einkennum veirunnar. Það er gert vegna þess að þetta fólk getur engu að síður verið virkir smitberar í allt að 2-3 vikur.