Ögmundur Jónasson, fv. innanríkisráðherra, er afar ósáttur við sinn gamla flokk í orkupakkamálinu og segist ekki hafa trúað því að óreyndu að Vinstrihreyfingin grænt framboð væri komin á þann stað sem hún er nú.
„Menn hljóta að spyrja hvort til standi að breyta nafninu í Hreyfingin, framboð? Þá þyrfti líka að breyta skammstöfuninni á heiti flokksins til samræmis,“ segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Ögmundur segir að tveir fyrstu orkupakkarnir hafi gengið út á að búta raforkukerfi þjóða niður, svo hægt væri að reka það sem viðskiptaeiningar en ekki fyrst og fremst opinberar þjónustueiningar.
„Þetta var samþykkt hér á landi í orkupökkum eitt og tvö. Í orkupakka þrjú er síðan gengið lengra í að samhæfa kerfið í markaðsvæddu samkeppnisumhverfi. Það er fært nær „fjórfrelsinu“ svokallaða, frjálsu flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls og skorið á naflastrenginn við samfélagið sem eiganda. Allt traust eiga menn nú að leggja á neytendasamtök og samkeppniseftirlit. Í fjórða pakka mun Evrópumarkaði verða skipt upp í svæði óháð landamærum ríkja,“ segir hann.
Oflátungar eiga ekki að þagga niður umræðuna
„En hvernig á að bregðast við andófi? Hvernig yrði best staðið að því að friða samfélag sem augljóslega stefnir inn í hærra verðlagsumhverfi með samtengingu sem fjárfestar róa öllum árum að? Það má náttúrlega byrja á því að segja að ekki standi til að sameinast stærri markaði. Það má líka reyna að segja að framlag Íslendinga með hreinni orku inn á stærri raforkumarkað en hér er, sé göfug fórn í anda loftlagsmarkmiða; svo má stofna þjóðarsjóð með nýjum ákvæðum í stjórnarskrá sem kveði á um að af orkunni sem öðrum auðlindum sem gefa arð skuli tekið gjald sem renni til samfélagsins. Þetta var auglýst um daginn og augljóslega ætlað inn í umræðuna um markaðsvæðingu orkunnar. Og síðan má náttúrlega segja að allir þeir sem ekki fylgi þessari hugsun, séu gamlir og úreltir, hafi sagt eitthvað allt annað í gær, séu á móti alþjóðlegu samstarfi eða skilji ekki málið,“ bætir hann við.
Og Ögmundur vísar í grein sinni til þess að það séu einkum aldraðir fyrrverandi stjórnmálamenn sem leiði andstöðuna við þriðja orkupakkann.
„Og hvað hinn skelfilega glæp áhrærir að eldast með árunum þá skal ég játa að með aldrinum hefur ekki dregið úr andstöðu minni við einkavæðingu grunnþjónustu. Ég hef leyft mér að skýra það í ljósi þeirrar reynslu sem einkavæðingin hefur fært okkur, óhagkvæmara kerfi með rándýrum milliliðum sem maka krókinn á kostnað samfélagsins. Varla eru það elliglöp að koma auga á þetta?
Auðvitað á ekki að láta oflátunga á fjölmiðlum eða Alþingi komast upp með að þagga niður umræðu með því að gera lítið úr fólki vegna aldurs. Þar fyrir utan getur það varla talist rétt að horfa framhjá öllu unga fólkinu sem vill að orkan sé okkar,“ segir Ögmundur.