Spyr hvort til standi að taka Vinstri út úr nafni VG — Hreyfingin, framboð?

Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og fv. þingmaður Vinstri grænna.

Ögmundur Jónasson, fv. innanríkisráðherra, er afar ósáttur við sinn gamla flokk í orkupakkamálinu og segist ekki hafa trúað því að óreyndu að Vinstri­hreyf­ing­in grænt fram­boð væri kom­in á þann stað sem hún er nú.

„Menn hljóta að spyrja hvort til standi að breyta nafn­inu í Hreyf­ing­in, fram­boð? Þá þyrfti líka að breyta skamm­stöf­un­inni á heiti flokks­ins til sam­ræm­is,“ segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Ögmundur segir að tveir fyrstu orkupakkarnir hafi gengið út á að búta raforkukerfi þjóða niður, svo hægt væri að reka það sem viðskipta­ein­ing­ar en ekki fyrst og fremst op­in­ber­ar þjón­ustu­ein­ing­ar.

„Þetta var samþykkt hér á landi í orkupökk­um eitt og tvö. Í orkupakka þrjú er síðan gengið lengra í að sam­hæfa kerfið í markaðsvæddu sam­keppn­is­um­hverfi. Það er fært nær „fjór­frels­inu“ svo­kallaða, frjálsu flæði fjár­magns, vöru, þjón­ustu og vinnu­afls og skorið á nafla­streng­inn við sam­fé­lagið sem eig­anda. Allt traust eiga menn nú að leggja á neyt­enda­sam­tök og sam­keppnis­eft­ir­lit. Í fjórða pakka mun Evr­ópu­markaði verða skipt upp í svæði óháð landa­mær­um ríkja,“ segir hann.

Oflátungar eiga ekki að þagga niður umræðuna

„En hvernig á að bregðast við and­ófi? Hvernig yrði best staðið að því að friða sam­fé­lag sem aug­ljós­lega stefn­ir inn í hærra verðlags­um­hverfi með sam­teng­ingu sem fjár­fest­ar róa öll­um árum að? Það má nátt­úr­lega byrja á því að segja að ekki standi til að sam­ein­ast stærri markaði. Það má líka reyna að segja að fram­lag Íslend­inga með hreinni orku inn á stærri raf­orku­markað en hér er, sé göf­ug fórn í anda loft­lags­mark­miða; svo má stofna þjóðarsjóð með nýj­um ákvæðum í stjórn­ar­skrá sem kveði á um að af ork­unni sem öðrum auðlind­um sem gefa arð skuli tekið gjald sem renni til sam­fé­lags­ins. Þetta var aug­lýst um dag­inn og aug­ljós­lega ætlað inn í umræðuna um markaðsvæðingu ork­unn­ar. Og síðan má nátt­úr­lega segja að all­ir þeir sem ekki fylgi þess­ari hugs­un, séu gaml­ir og úr­elt­ir, hafi sagt eitt­hvað allt annað í gær, séu á móti alþjóðlegu sam­starfi eða skilji ekki málið,“ bætir hann við.

Og Ögmundur vísar í grein sinni til þess að það séu einkum aldraðir fyrrverandi stjórnmálamenn sem leiði andstöðuna við þriðja orkupakkann.

„Og hvað hinn skelfi­lega glæp áhrær­ir að eld­ast með ár­un­um þá skal ég játa að með aldr­in­um hef­ur ekki dregið úr and­stöðu minni við einka­væðingu grunnþjón­ustu. Ég hef leyft mér að skýra það í ljósi þeirr­ar reynslu sem einka­væðing­in hef­ur fært okk­ur, óhag­kvæm­ara kerfi með rán­dýr­um milliliðum sem maka krók­inn á kostnað sam­fé­lags­ins. Varla eru það elli­glöp að koma auga á þetta?

Auðvitað á ekki að láta of­látunga á fjöl­miðlum eða Alþingi kom­ast upp með að þagga niður umræðu með því að gera lítið úr fólki vegna ald­urs. Þar fyr­ir utan get­ur það varla tal­ist rétt að horfa fram­hjá öllu unga fólk­inu sem vill að ork­an sé okk­ar,“ segir Ögmundur.