Staða borgarsjóðs miklu verri en Einar bjóst við: „Hér er bara einn borgarstjóri!“

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar var miklu verri en Framsóknarflokkurinn, sem tók sæti í meirihluta borgarstjórnar eftir kosningar fyrir rúmum átján mánuðum, bjóst við og það hefur haft töluverð áhrif á möguleika flokksins til að standa við stóru orðin sem hann lofaði í kosningabaráttunni, að það yrðu gerðar breytingar í borginni.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í opnu viðtali við Einar Þorsteinsson, nýjan borgarstjóra og oddvita framsóknarmanna, í Sunnudagsmogganum. Þar er Einar spurður hvort staðan hafi verið „miklu verri“ en framsóknarmenn bjuggust við og hann svarar: „Já, ég hafði lesið ársreikning sem var með 3,8 milljarða halla og bjóst við að staðan væri nálægt því. Fyrsta uppgjörið sem ég sá var hálfsársuppgjörið sumarið 2022 og þá var hallinn kominn í 9,8 milljarða og spáin á þann veg að enn myndi syrta í álinn. Árið endaði í 15,6 milljörðum.“

Einar segir að það segi sig sjálft að þarna hafi verið komin upp „allt önnur staða“ og Framsókn hafi staðið frammi fyrir „gjörólíku verkefni“. Fyrir vikið hafi staðið yfir mikil hagræðing síðan flokkurinn kom inn í meirihlutann hann hafi komið með „mjög sterkar og skýrar rekstraráherslur inn í þennan meirihluta“.

Einar fullyrðir í viðtalinu að stemningin milli flokka í Ráðhúsinu sé betri nú en hún var á síðasta og þarsíðasta kjörtímabili. Bendir hann á að Framsókn hafi fengið fjóra fulltrúa kjörna, verið aðeins 200 atkvæðum frá þeim fimmta og það breyti meirihlutanum að Vinstri græn hafi farið út og svo margir fulltrúar Framsóknarflokksins komið inn. Þess vegna sé meirihlutinn nú „miklu miðjusinnaðri en sá gamli,“ segir hann.

Dagur B. Eggertsson fv. borgarstjóri er nú orðinn formaður borgarráðs og þeir Einar því haft stólaskipti. Aðspurður kveðst Einar þó ekki óttast að gamli borgarstjórinn muni anda um of niður hálsmálið á honum: „Þetta eru skýr skipti, hér er bara einn borgarstjóri!“.