Staðfest smit gætu verið orðin um 700 um mánaðarmótin

„Ég held við séum öll meira eða minna hrædd við CoViD faraldurinn þessa dagana, sum okkar vegna okkar eigin heilsu, sum vegna aðstandenda í áhættuhóp og enn aðrir vegna stöðu heilbrigðiskerfisins og þjóðfélagsins alls.“

Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans í færslu á fésbókinni, þar sem veltir vöngum yfir hraðri útbreiðslu veirunnar hér á landi og setur fram tölfræðilega spá um framhaldið, byggða á líkindareikningi.

„Langflestir fylgja ráðleggingum sóttvarnarlæknis og reyna eftir bestu getu að forðast smit. Á sama tíma fáum við sífelldar fréttir og lýsingar frá öðrum löndum um skelfilegar afleiðingar faraldursins. Við þurfum að taka til okkar staðreyndir og undirbúa okkur fyrir það sem er framundan á sama tíma og við verðum að reyna að halda áfram með okkar líf.

Eftirfarandi er sett fram til fróðleiks með fyrirvara um að þar er eingöngu verið með stærfræðilegum aðferðum að reyna rýna í mögulegan fjölda smita næstu tvær vikur miðað við fjölda smita frá 28. febrúar til 17. mars.

Eingöngu er um stærðfræðilega spá að ræða. Vonandi nær samkomubannið að draga úr aukningu smita.

Tilgangurinn er að hafa einhvern grunn til þess að áætla hvernig við getum þurft að undirbúa okkur,“ segir yfirlæknirinn.

Á myndinni hér að neðan sést þróun nýrra smita og heildarfjölda smita frá 28/2 til 17/3 skv. tölum á covid.is.

Myndin hér að ofan sýnir spánna fyrir næstu tvær vikur ef við náum ekki að hemja smitin. Samkvæmt henni verða komin 701 smit 1. apríl.

„Ég hvet því alla til að fara að öllu eftir tilmælum sóttvarnarlæknis. Við verðum í sameiningu að ná að stöðva þennan faraldur,“ segir Jón Magnús ennfremur.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknis á bráðadeild LSH.