Stærsta byggingaverkefni þingsins síðan Alþingishúsið reis 1881

Tölvuteikning af fyrirhugaðri nýbyggingu Alþingis við Vonarstræti sem hýsa mun starfsemi þingnefnda, skrifstofur þingmanna og þingflokka.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kynnti nýbyggingu Alþingis, sem fyrirhugað er að rísi við Vonarstræti, fyrir þingmönnum og starfsfólki Alþingis á svonefndum Alþingisdegi sl. fimmtudag.

Nýbyggingin mun hýsa  starfsemi þingnefnda, skrifstofur þingmanna og þingflokka. Nýbyggingin er stærsta byggingarverkefni þingsins síðan Alþingishúsið reis 1881.

Við sama tækifæri fóru forseti þingsins og Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður lagaskrifstofu, yfir nýlegar breytingar á hagsmunaskráningu þingmanna og ítrekuðu að þingmenn bæru ábyrgð á að á vef þingsins væru skráðar nýjustu upplýsingar um hagsmuni þeirra.