Stál í stál: Vonlaust verk að semja um fiskimiðin í Brexit?

Það virðist ætla að reynast þrautin þyngri að ná samkomulagi um full yfirráð Breta yfir eigin fiskimiðum í útgöngusamningum við Evrópusambandið, að því er enska stórblaðið Telegraph greinir frá í dag.

Þar segir að samkomulag um fiskveiðar virðist vonlaust verk (e. mission impossible) í samningaviðræðunum milli sendinefnda frá Brussel og Lundúnum.

Dimplómatar telji að of mikið beri í milli til að ástæða sé til bjartsýni. Bæði er að franskir sjómenn krefjast þess að hafa áframhaldandi veiðiheimildir undan ströndum Bretlands, eigi heilu héruðin í Frakklandi ekki að verða fyrir efnahagslegu rothöggi og hitt að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefur sagt að lykilatriði með útgöngunni –– Brexit –– sé að Bretar fái aftur full yfirráð yfir auðlindum sínum.

David Frost, aðalsamningamaður Breta, sagði eftir lok þriðju samningalotunnar um helgina, að ESB haldi kröfum um veiðiheimildir til streitu. Það sé óásættanlegt fyrir framtíðarstöðu Bretlands sem sjálfstæðs og fullvalda strandríkis.