Metfundi lauk á þingi nú á ellefta tímanum, þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, frestaði fundi sem hafði staðið með hléum í ríflega sólarhring og lýsti miklum vonbrigðum með að þingmenn Miðflokksins hafi ekki orðið við vinsamlegum beiðnum um að ljúka máli sínu um þriðja orkupakkann og leyfa þingræðinu að ráða.
Hér til hliðar má sjá yfirlit úr gagnagrunni Alþingis sem hefur tekið saman upplýsingar um fundi Alþingis frá árinu 1991. Sjá má að fundurinn sem stóð í gær, nótt og í morgun er sá lengsti í Íslandssögunni, því fundir í neðri og efri deildum þingsins hófust að jafnaði eftir hádegi á árum áður og reynslumestu menn muna ekki til þess að fundir hafi nokkru sinni staðið jafn lengi og eru þá meðtaldir langir fundir um kvótamálið í upphafi níunda áratugarins.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins (og einn af varaforsetum þingsins) benti forseta á í morgun að hann gæti hvenær sem er sett önnur dagskrármál fram fyrir orkupakkann, svo brýn mál þurfi ekki að líða fyrir tafirnar, en Steingrímur J. sagðist þá ekki standa til að láta minnihluta þingmanna eða Miðflokkinn sem slíkan taka yfir dagskrárvald í þinginu.
Umræður á eldhúsdegi fara fram í kvöld í beinni útsendingu og ekki verður fundað á morgun á uppstigningardag. Næsti þingfundur er því kl. hálftíu á föstudagsmorgun og þá er viðbúið að haldið verði áfram með umræðuna um orkupakkann.
Umræðan um orkupakkann þann hefur staðið í yfir 132 klukkustundir og þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í rúmlega 110 klukkustundir. Andsvör eru orðin 2.675 talsins og hafa tekið 85 klukkustundir, eftir því sem fram kom í máli þingforsetans.

Hann sagði blasa við að framkvæmdin væri komin í miklar ógöngur og ekki í anda þeirra breytinga sem gerðar voru á þingsköpum þegar greiða átti fyrir þingstörfum til framtíðar litið.
Skrípaleikur
Eins og nærri má geta, sýnist sitt hverjum um stöðuna sem komin er upp í þinginu. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, segir á fésbókinni að Steingrímur J. Sigfússon geti að mörgu leyti sjálfum sér um kennt.

„Skrípaleikurinn á þinginu heldur áfram. Forseti þingsins, sem setur saman dagskránna, kvartar yfir að ekki komist á dagskrá mál sem eru brýn og góð.
Nú, af hverju setur hann þessi mál þá ekki bara á dagskrá?
Steingrími þykir störukeppni sín og Miðflokksmanna það mikilvægasta, allt annað verði að bíða. Ef svo væri ekki myndi hann setja á venjubundna dagskrá, afgreiða góð mál og brýn og taka aftur upp störukeppni að því loknu.
Ástandið á þinginu er fyrst og síðast afleiðing þess að Steingrímur taldi sig auðveldlega geta snúið Miðflokkinn niður, sigað öðrum þingmönnum, starfsmönnum þings og almenningsálitinu gegn þeim. En það tókst ekki. Þess vegna situr forseti uppi með skrípa-þing og kennir nú öllum öðrum um,“ segir Gunnar Smári.