Stendur við ummæli sín og hyggst ekki biðjast afsökunar

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

„Öllum var gert ljóst í upphafi fundarins að öllum ákvörðunum yrði frestað, og að fundurinn yrði kynningarfundur í staðinn, en á hann voru mættir aðilar utan úr bæ,“ sagði Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, í samtali við Viljann. 

Hún stendur við ummæli sín frá því á fundi skipulags- og samgönguráðs borgarinnar frá 15. ágúst í fyrra, „í öllum meginatriðum,“ um útgöngu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins af fundinum, en þau töldu fundinn vera ólögmætan vegna þess hve boðun og kynningu hans hafði verið formlega áfátt.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú staðfest að svo var og sent borgarstjóra erindi þar að lútandi.

Kristín Soffía segir „alvanalegt“ að verða við óskum borgarfulltrúa um frestun mála, og að hlutaðeigandi hafi verið beðin „margfaldlega afsökunar“ á mistökunum við boðun fundarins og afhendingu dagskrárinnar. 

„Það var þarna nýtt fólk og um var að ræða innsláttarvillu í einu tölvupóstfangi, hjá starfsmanni sem vann við að senda út fundarboðið,“ segir Kristín Soffía og vill meina að fulltrúar minnihlutans hafi skipulagt útgöngu af fundinum, þar sem að ljósmyndari hafi verið mættur á staðinn til að mynda þau ganga út af honum.

Segir málin blásin upp

Spurð að því hvort að það sé þá bara aldrei neitt meirihlutanum í borgarstjórn að kenna, með tilvísun í ýmis mál sem komist hafa í hámæli undanfarið vegna stjórnar borgarinnar, segir Kristín Soffía málin „blásin upp“ og segir meirihlutann taka fulla ábyrgð á sínum ákvörðunum, en þegar að málin séu úr þeirra höndum í kerfinu, þá sé eðlilegt að benda á það.

„Það er ekki allt pólitískt og innsláttarvilla er það svo sannarlega ekki.“

Ekki náðist í Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, borgarfulltrúa Pírata og formann skipulags- og samgönguráðs við vinnslu fréttarinnar.