Stjórnarandstaðan styður tillögur ríkisstjórnarinnar en vill ganga lengra

Miðflokkurinn, Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins hafa lagt fram sameiginlegar tillögur um efnahagsaðgerðir til viðbótar þeim sem ríkisstjórnin hefur þegar lagt fram og kynnt. Samtals hljóða tillögurnar upp á 30 milljarða króna innspýtingu í íslenskt efnahagslíf á þessu ári.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá flokkunum, sem segjast sammála um að tillögur ríkisstjórnarinnar gangi of skammt hvað varðar aukna opinbera fjárfestingu, stuðning við nýsköpun og nauðsynlega styrkingu velferðarkerfisins vegna Kórónaveirunnar.

Aðrir hagsmunaaðilar hafi sömuleiðis bent á nauðsynina að meira sé gert. Flokkarnir árétta að þeir munu, eftir sem áður, styðja aðgerðir ríkisstjórnarinnar er miða í rétta átt en telja brýnt að nú sé meira að gert.

Lagt er til að 9 milljörðum til viðbótar verði beint inn í tækni, sprota- og skapandi verkefni,  viðbótarfjárfestingar í vegakerfinu verði upp á 9 milljarða króna, tæpum 5 milljörðum verði varið í fjárfestingar í hjúkrunarheimilum og öðrum fasteignum hins opinbera, og rúmum 7 milljörðum króna verði varið til velferðarmála.

„Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa unnið ötullega og af heilindum að því að ná þverpólitískri samstöðu innan Alþingis um nauðsynlegar aðgerðir til viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf vegna útbreiðslu Kórónaveirunnar. Var sú vinna unnin í trausti þess að vilji væri til slíkrar samstöðu og samvinnu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Því miður reyndist svo ekki vera. Sú niðurstaða olli vonbrigðum, sérstaklega í ljósi ítrekaðra yfirlýsinga ríkisstjórnarflokkanna um breytt vinnubrögð. Stjórnarandstöðuflokkarnir standa því saman að breytingartillögu með þeim verkefnum og stuðningi sem þeir telja nauðsynleg og ekki náðust í gegn í vinnu þingsins í liðinni viku. Mikilvægt er að missa ekki sjónar af takmarkinu um vernd og uppbyggingu íslensks atvinnulífs.

Tillögur stjórnarandstöðunnar eru viðbætur sem eru unnar út frá tillögum ríkisstjórnarinnar og eru ekki tæmandi talning á því sem til þarf.

Þær skiptast í 4 flokka og má lesa hér um einstök verkefni undir sérhverjum flokki:

1. Nýsköpun og sprotafyrirtæki: 9,1 milljarður kr.

            Stjórnarandstaðan leggur m.a. áherslu á nýsköpun, rannsóknir og skapandi greinar. Þá skiptir máli að aðgerðir stjórnvalda nái til beggja kynja. Hækka á þak á endurgreiðslum rannsóknar- og þróunarkostnaðar (1,5 makr) en það mun flytja fjölmörg verkefni til landsins. Setja á 1 milljarð kr.  í Tækniþróunarsjóð sem myndi næstum tvöfalda þennan lykilsjóð. Annar milljarður fer í Rannsóknarsjóð og Innviðasjóð. Þá mun hálfur milljarður renna til menningar, íþrótta og lista þar sem verulegt tekjutap hefur orðið vegna faraldursins. Keilir og Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum fá 100 mkr. og Loftslagssjóður, þar með talið skógrækt, fá hálfan milljarð kr. Þá munu framlög til rannsókna og nýsköpunar í landbúnað (s.s. grænmetisrækt) fá hálfan milljarð. Þá leggur stjórnarandstaðan til tímabundna niðurfellingu eða lækkun tryggingargjalds upp á 4 milljarða kr. fyrir fyrirtæki með 7 eða færri starfsmenn.

2. Vegaframkvæmdir og viðhald: 9 milljarðar kr.

            Lagt er til að ráðist verði í mannaflsfrekar framkvæmdir sem hægt er að ráðast í á þessu ári. Verður Vegagerðinni falið að meta hvaða verkefni (5 makr) gætu bæst við en þar má nefna t.d. flýtingu á framkvæmdum við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg sé þess kostur. Þá er lagt til að 3 makr verði ráðist í viðhald og tengivegi vegakerfisins þar sem Vegagerðinni verði falið að meta brýnustu verkefnin í hverjum landshluta. Milljarði kr. verður varið í flýtingu framkvæmda vegna skipulagsmála á höfuðborgarsvæðinu og í göngu- og hjólastíga.

3. Fasteignir og aðrar fjárfestingar: 4,6 milljarðar kr.

Ráðist verður í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila á Suðvesturhorni landsins fyrir 2 milljarða kr. Einnig verða opnuð ný rými sem nú þegar eru til en vantar rekstrarfjármagn upp á 1 milljarð kr. Þetta mun leysa bráðavanda, fjölga störfum og létta álagi af sjúkrastofnunum landsins. Ráðist verði í önnur minni verkefni sem eru startholunum og má þar nefna stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga t.d. sem varðar fráveitumál (300 mkr), 300 mkr. í sóknaráætlun landshluta, framkvæmdir við flughlað á Akureyri og á Egilsstaðaflugvelli (300 mkr), 100 mkr í flugstöðina á Akureyri, 200 mkr. í Tækniskólann, endurgerð sögulegra innréttinga Bessastaðakirkju (100 mkr), viðhaldsverkefni við Hóla í Hjaltadal (100 mkr.), framkvæmdir við íþróttahús VMA (100 mkr), og Húsasafn Þjóðminjasafnsins (100 mkr.).

4. Velferðarmál: 7,3 milljarður kr

            Vegna ótrúlegs álags er lagt til að greidd verði sérstök 200.000 kr. eingreiðsla til þess starfsfólks í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem hefur unnið við umönnun Covid smitaðra sjúklinga. Samhliða þessari greiðslu er sérstaklega hvatt til að ríkisvaldið gangi frá kjarasamningum við þær heilbrigðisstéttir sem ósamið er við. Þá er lagt til aukið framlag til vaxta- og húsnæðisbóta til að mæta fyrirsjáanlegri kaupmáttarskerðingu (3 makr.) en það nær til tekjulágra einstaklinga. Stjórnarandstaðan leggur til að eldri borgarar fái sambærilega eingreiðslu og öryrkjar fá, upp á 20.000 kr. Framlög viðfyrirsjáanlegan kostnað heilbrigðiskerfis vegna faraldursins verða aukin um milljarð kr og 200 mkr. verða lagðar til að fjölgun NPA samninga. Loks verða 200 mkr. lagðar til við SÁÁ m.a. vegna minnkandi sjálfaflafjár í kjölfar faraldursins og 100 mkr. renna til aukins stuðnings til fjölskyldna langveikra barna sem hafa orðið fyrir talsverðu tekjutapi vegna faraldursins,“ segir þar ennfremur.

Heildartölurnar í súluritinu hér að ofan byggja á útreikningum Deloitte á umfangi aðgerða í nokkrum nágrannalöndum Íslands með tilliti til landsframleiðslu. Löndin nota ólíkar skilgreiningar á umfangi aðgerða en í tilviki Íslands er gerður greinarmunur á eðli aðgerðanna.

Dökkbláa súlan sýnir nýtt framlag ríkisins, heiðbláa súlan sýnir áður boðaðar aðgerðir (hlutastarfaleið og fjárfestingaáform) og sú ljósbláa hugsanlegar lánveitingar bankanna, tímabundna frestun skattgreiðslna, úttekt séreignasparnaðar o.fl.