Stjórnarmaður í VG styður ekki innleiðingu 3. orkupakkans

Bjarni Jónsson.

„Nei, það geri ég ekki, sagði Bjarni Jónsson, stjórnarmaður, sveitarstjórnarmaður og varaþingmaður Vinstri grænna (VG) á Norðvesturlandi í samtali við Viljann. Spurt var hvort hann styðji innleiðingu 3ja orkupakka ESB, í ljósi þess að fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvörp og þingsályktunartillögu um innleiðingu hans.

„Stjórnvöld eiga eftir að útskýra betur hvað þau meina með þeim fyrirvörum sem þau hafa nefnt,“ segir Bjarni sem var spurður um nokkur atriði í stefnu Vinstri grænna í orkumálum af þessu tilefni.

1.) „Umræða um að selja orku til útlanda með sæstreng hefur farið fram af og til á undanförnum 20 árum. Skoðaðir hafa verið efnahagslegir og félagslegir kostir og gallar. Ljóst er að sæstrengur er kostnaðarsamt og áhættusamt verkefni, sem myndi setja mikinn þrýsting á íslenska náttúru. Hætt er við að virkja þyrfti hvern einasta foss og jarðhitasvæði og raska þannig verðmætum víðernum til að standa undir kostnaði og til að hámarka arðsemi verkefnisins.“

Viljinn spyr: Telurðu að frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu 3ja orkupakkans samræmist stefnu VG, t.d. þar sem að þrýst gæti orðið á meiri virkjanaframkvæmdir og orkuframleiðslu?

Bjarni Jónsson: „Svarið liggur í þessari tilvitnun í stefnu VG. Ég óttast að þeir fyrirvarar sem settir verða, ef það tekst, verði bara til skamms tíma. Ég hef áhyggjur af því sem nefnt hefur verið, markaðsvæðingu orkugeirans, hækkuðu raforkuverði og að innleiðing verði íslenskri náttúru þungbær, m.a. vegna þrýstings á frekari virkjunarframkvæmdir. Þau atriði ættu að koma við VG, en einnig einka- og markaðsvæðingin á orkuauðlindinni sem VG hefur lagt áherslu á að verði í opinberri eigu. Því miður fer lítið fyrir þeim umræðuvinkli hvaða afleiðingar ágengni á náttúruna hafi. Þarna er líka verið að stíga skref í að opna á lagningu sæstrengs, og ég vil ekki að við Íslendingar missum sjálfsákvörðunarréttinn frá okkur.“.

2.) „Stórvirkjanir í þágu mengandi stóriðju samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu.“

Viljinn spyr: Er möguleiki á að orkan sem framleidd og seld verður til útlanda verði keypt af mengandi stóriðju þar, og jafnvel hérlendis líka, án þess að stjórnvöld fái rönd við reist?

Bjarni Jónsson: „Ég held að þetta verði úr höndunum á fólki, með því að færa valdið annað. Störf o.fl. verða í húfi, verkefni sem hafa verið umdeild, en hafa þó skapað störf fyrir Íslendinga, gætu verið í uppnámi. T.d. eins og í málmverksmiðjum hérlendis og hjá stærri orkukaupendum. Það gæti líka orðið enn fjarlægara að koma til móts við landbúnaðinn og garðyrkjuna sem gæti farið mjög illa út úr þessari innleiðingu“, svaraði Bjarni. Hann telur að ekki þurfi annað en að ESB-sinnar komist í ríkisstjórn til að fyrirvarar og hindranir á lagningu sæstrengs yrði rutt úr veginum.

3.) „Greiða þarf sanngjarnt gjald þegar auðlindir í eigu þjóðarinnar eru virkjaðar og gera verður kröfu til þess að stórnotendur greiði sanngjarnt verð fyrir orkuna sem þeir kaupa sem og allan kostnað við flutning og afhendingu hennar.“

Viljinn spyr: Er ekki hætta á „ómöguleika“ við að ákveða sanngjarnt gjald, þegar framboð og eftirspurn á að stjórna verðmyndun á sameiginlegum orkumarkaði ESB?

Bjarni Jónsson: „Já, þetta samræmist ekki þeirri sýn sem VG hefur lagt upp með. Þarna erum við að missa forræðið á auðlindinni og stíga skref til markaðs- og einkavæðingar á orkunni. Við myndum t.d. vilja hafa vald til að stýra orkunni í vistvænni verkefni hér heima.“

4.) „Ísland þarf að taka mið af niðurstöðum vísindamanna og setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2040.“

Viljinn spyr: Ef Ísland verður hluti af orkumarkaði ESB, er þá ekki hætta á að Íslendingar verði, í gegnum sameiginleg kaup og sölu á orku, notendur að óumhverfisvænni orku eins og kolefnabruna og kjarnorku, í stað þess að vera kaupendur að „hreinni“ orku eins og nú?

Bjarni Jónsson: „Það er ekki gegnsætt hvert þetta stefnir. Það fólk í VG sem leggur sig eftir náttúruvernd, og því að orkuauðlindin sé í almannaeigu, hefur sérstakar áhyggjur.“

Viljinn spyr: Sérðu einhverja kosti við að innleiða 3ja orkupakkann?

Bjarni Jónsson: „Í fljóti bragði ekki, og það eru engin rök, að búið sé að innleiða orkupakka 1 og 2. Ég styð að við höldum okkar sérstöðu, sjálfsákvörðunarrétti og vernd íslenskrar náttúru.“