Á næstunni munu stjórnvöld kynna tillögur sínar að skattkerfisbreytingum, en í tengslum við endurnýjun kjarasamninga fyrir tæpu ári boðaði ríkisstjórnin að þær breytingar sem gerðar yrðu á tekjuskattskerfinu myndu miða að því að koma til móts við tekjulægri hópa og lægri millitekjuhópa.
Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í almennum stjórnmálaumræðum sem fram fóru á Alþingi í dag í upphafi vorþings.
Kvaðst hún binda miklar vonir við að þær tillögur sem kynntar verði á næstunni, bæði hvað varðar skattkerfið og húsnæðismál og sagðist hún vona að þær muni greiða fyrir því að lenda kjarasamningum með farsælum hætti á vinnumarkaði.
Forsætisráðherra sagði jafnframt frá stöðu mála í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
„Formenn flokka hafa nú átt níu fundi um stjórnarskrárbreytingar, en í upphafi þessa kjörtímabils lagði ég fram þá hugmynd að við myndum ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum, þessu og því næsta. Þar var enn fremur lagt til ákveðið vinnulag, þ.e. hvernig viðfangsefnin yrðu tekin fyrir, í hvaða röð og hvernig staðið yrði að vinnunni.
Unnið að endurskoðun í fullri alvöru
Nú á síðasta fundi okkar, sem haldinn var sl. fimmtudag, lagði ég fram endurskoðað minnisblað sem tekur mið af því hvernig vinnan hefur þróast. Það er ljóst að umræða um einstök viðfangsefni er mislangt á veg komin.
Sumt höfum við rætt árum og áratugum saman. Ég nefni sem dæmi ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Sömuleiðis hefur mikið verið rætt um ákvæði um umhverfisvernd og þjóðaratkvæðagreiðslu, framsal valdheimilda. Það eru þau mál sem við settum fyrst á dagskrá formanna og fulltrúa flokkanna, en þetta eru ekki þau einu.
Enn fremur höfum við tekið til umræðu forsetaembættið í stjórnarskrá og stöðu framkvæmdarvalds í stjórnarskrá.
Ég hef sagt að ég telji þessa vinnu hafa gengið vel. Opinber umræða að undanförnu hefur kannski fyrst og fremst snúist um bókanir einstakra nefndarmanna, um sýn þeirra og skoðanir á stjórnarskránni, og telst mér raunar til að nánast allir formenn hafi ýmist bókað eða tekið undir bókanir annarra á nýliðnum fundum. En vinnan snýst minnst um þessar bókanir.
Ég legg á það mjög mikla áherslu að við sem sitjum við þetta borð, formenn og fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi, tökum þátt í þessari vinnu af fullri alvöru, skilum af okkur góðum tillögum um góðar breytingar á stjórnarskrá, og að um þær verði haft samráð við almenning en ekki endilega sama samráðið um ólíkar tillögur. Ýmist munum við nýta samráðsgáttina, við getum efnt til rökræðukannana og við höfum rætt að gera skoðanakannanir.
En það er mikilvægt að við nýtum kjörtímabilið allt til starfans því að sagan sýnir okkur að hætt er við því að stjórnarskrárbreytingar eða tillögur að þeim sem kastað er inn í umræðuna á Alþingi á síðustu vikum fyrir kosningar nái ekki fram að ganga, m.a. vegna ágreinings um óskyld málefni.
Það er í raun ekkert sem stoppar mig í því að leggja bara fram mínar eigin tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Auðvitað er ekkert útilokað að ég geri það ef ekki næst góð samstaða um breytingar á stjórnarskrá. En það er mín einlæga sannfæring að þessar breytingar verði betri ef við ræðum þær sameiginlega og vinnum sameiginlega að þeim, þótt við höfum öll ólíka sýn á hversu miklu eigi að breyta og hvernig eigi að breyta.
Tillögur stjórnlagaráðs eru mismikið reifaðar í samfélaginu og mismikið ígrundaðar.
Ég tel ekki að sú stjórnarskrárumræða skili miklum árangri sem föst er í skotgröfum þar sem ýmist á engu að breyta og gildandi stjórnarskrá er heilagt orð, eða sú sýn að þær tillögur sem skilað var á sínum tíma af stjórnlagaráði séu heilagt orð þar sem engu má breyta. Ýmis ákvæði í gildandi stjórnarskrá þarfnast svo sannarlega endurskoðunar. Tillögur stjórnlagaráðs eru mismikið reifaðar í samfélaginu og mismikið ígrundaðar.
Það skiptir hins vegar máli að við tökum mark á því sem spurt var um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, þ.e. hvort almenningur vildi byggja á þeim drögum sem stjórnlagaráð hafði skilað. Það skiptir máli að við höfum þær tillögur til hliðsjónar. En ég vil segja það hér að ég tel að stjórnmálin skuldi almenningi að gera breytingar á stjórnarskrá og hafi þar til hliðsjónar vinnu við undanfarinna ára. En til þess að þær breytingar gangi í gegn þarf Alþingi Íslendinga að samþykkja þær.
Þess vegna skiptir raunverulegu máli að ná sem breiðastri samstöðu um slíkar breytingar. Það sem skipta mun almenning hér á landi mestu í þessu máli eru raunverulegar breytingar til framtíðar en ekki upphrópanir nútíðarinnar. Og raunverulegar breytingar í þágu (Forseti hringir.) bæði almennings og umhverfis eru löngu tímabærar.
Nú á þessu ári þar sem við fögnum 75 ára afmæli lýðveldisins og gildandi stjórnarskrár held ég að við höfum mikil tækifæri til að sýna fram á að stjórnmálin eru reiðubúin til að gera sitt í þessu mikilvæga máli,“ sagði Katrín.