Stjórnum ekki veðri, en verðum að tryggja trausta innviði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað þjóðaröryggisráð til fundar kl. 17 í dag vegna veðurhamfaranna sem dunið hafa yfir landið undanfarna daga.

„Síðustu sólarhringa höfum við verið minnt á að við búum við öflug náttúruöfl. Aftakaveður hefur verið fyrir norðan og íbúar þar eru í sérstaklega erfiðri stöðu. Ég hef heyrt bæði í íbúum og sveitarstjórnarfólki og staðan er víða þung og erfið. Matur hefur skemmst í matvöruverslunum, bændur hafa víða enn ekki getað mjólkað kýr, fólki er kalt og skemmdir hafa orðið á húsum. Á sama tíma er ljóst að allir viðbragðsaðilar hafa ekki unnt sér hvíldar og unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður,“ segir hún á fésbókinni.

„Á meðan allt kapp er nú lagt á skammtíma aðgerðir til að koma rafmagni aftur á svæði og tryggja örugg fjarskipti er það um leið forgangsatriði að við vinnum aðgerðaáætlun til lengri tíma. Við höfum því ákveðið að skipa hóp sem fer strax í að greina stöðuna og leggja til nauðsynlegar úrbætur til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Hópurinn fer strax af stað með fulltrúa mínum, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ég hef að auki boðað þjóðaröryggisráð á fund klukkan 17 í dag til að það sé upplýst um stöðu mála. Þá munu ráðherrar heimsækja Samhæfingarmiðstöðina í dag til að taka stöðuna.

Við munum aldrei geta stjórnað veðrinu en við verðum að tryggja eins trausta innviði og mögulegt er,“ bætir forsætisráðherra við.